148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér höfum við dæmi í löggæslumálunum um hvernig við erum að stilla upp í töflum markmiðum, mælikvörðum og aðgerðum. Þegar við förum að venjast því að fá ársskýrslur úr fagráðuneytum hingað í þingið reglulega til að fylgja því eftir hvernig hafi til tekist held ég að við séum komin á alveg nýjan stað í samskiptum þings og framkvæmdarvalds til þess að gá eftir því hvort fjármunir sem hafa verið tryggðir í einstaka málaflokka hafi raunverulega verið nýttir, hvers vegna markmiðunum hafi ekki verið náð, hvort það sé vegna slælegrar stjórnunar og eftirfylgni eða hvort fjármunirnir hafi verið ónógir, hvort viðkomandi fagráðherra hafi verið að beita sér. Hann þarf að koma hingað í þingið og svara fyrir það þegar markmiðunum er ekki náð. En á sama tíma fær ráðherra tækifæri til að slá sér á brjóst þegar hann hefur sett fram markmið sem nást og kannski gott betur. En hér erum við að lista upp stöðuna (Forseti hringir.) eins og hún er á síðasta ári og hver viðmiðin eru fram á við um þjónustustig, löggæslu og öryggisstig, trausta og heiðarlega lögreglu o.s.frv. Þetta eru algerlega nýir tímar sem ég verð að nota tækifærið til að fagna aftur.