148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þann 12. desember 2008 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Frumvarpið var lagt fram af forseta Alþingis og formönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi og var afrakstur samkomulags um skipan sérstakrar rannsóknarnefndar.

Forsætisnefnd Alþingis skipaði einnig sérstakan vinnuhóp til að leggja mat á hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði. Í skýrslu þingmannanefndarinnar, sem átti að skila tillögum að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðu rannsóknarskýrslunnar, segir, með leyfi forseta:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sett fram gagnrýni á störf og starfshætti Alþingis sem mikilvægt er að bregðast við.“

Þau atriði sem m.a. eru talin upp eru:

„… að sett verði ákvæði í stjórnarskrá um hlutverk Alþingis.

… að alþingismenn setji sér siðareglur.

… að styrkja beri eftirlitshlutverk þingsins, rétt þingmanna til upplýsinga, aðgengi að faglegri ráðgjöf og stöðu stjórnarandstöðunnar …“ — og að nefndavinna verði skilvirkari.

„… að ríkisstjórn verði gert að leggja fram stjórnarfrumvörp með góðum fyrirvara …“ — Og ýmislegt fleira. Kannast þingmenn við eitthvað hérna?

Því furða ég mig á svari forseta við fyrirspurn minni um ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis og viðbrögð við þeim. Það er greinilegt að þingmannanefnd skilaði niðurstöðum. Hluti þeirra beinist að stjórnsýslu Alþingis, t.d. varðandi faglega ráðgjöf og aðgengi að upplýsingum. En þrátt fyrir þann mikla kostnað og vinnu sem hefur verið farið í gera þeir sem tillögurnar beinast að greinilega ekki mikið.

Í fjármálaáætlun meira að segja, sem kemur frá ríkisstjórn, er talað um hvað eigi að gera fyrir Alþingi. Hvað þýðir það um sjálfstæði þingsins?

Ég þakka samt skýrt svar. Forseti Alþingis hefur ekki tekið saman yfirlit um ábendingar sem beinast að stjórnsýslu þingsins þrátt fyrir tilefnið.