148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Áskoranir í heilbrigðisþjónustu nútímans lúta ekki síst að nýtingu fjármuna og þróun þjónustunnar, að nýsköpun og fjölbreytni, m.a. til að mæta sívaxandi kröfum um einstaklingsbundna þjónustu. Á sama tíma vinna íslensk stjórnvöld að því að steypa alla þjónustuveitendur í sama mót. Við þekkjum stöðuna með Hugarafl. Nýjasta dæmið er meðferðin á Karitas, sem er fyrirtæki í eigu nokkurra hjúkrunarfræðinga sem frá árinu 1994 hafa verið í fararbroddi við að veita fólki með langvinna og ólæknandi sjúkdóma ómetanlega þjónustu.

Karitas er núna að gefast upp. Þær eru að pakka saman vegna áhugaleysis stjórnvalda á áframhaldandi samstarfi.

Áttar enginn í stjórnarsamstarfinu sig á því að halda á lofti mikilvægi einkaframtaksins, mikilvægi fjölbreytninnar, í þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir? Ef það er einhver eftir meðal vina minna í Sjálfstæðisflokknum sem trúir á mikilvægi þess að hafa val, mikilvægi einkaframtaksins, ja, þá vitið þið hvar við erum og þið eruð velkomin.