148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

um fundarstjórn.

[11:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tók þessum orðum hv. þm. Brynjars Níelssonar persónulega. Ég vil nú víkja að dagskrá nefndafunda á næstunni. Þar er gert ráð fyrir því að fjárlaganefnd sé að störfum alltaf, einfaldlega alltaf, í öllum slottum, öllum hólfum sem nefndum er úthlutað til funda með ráðuneytunum til kl. 18 alla daga, frá kl. 8–18. Ég sé ekki að ég hafi í rauninni tíma til að undirbúa mína vinnu og fyrirspurnir mínar til ráðuneytanna á neinum öðrum tíma. Ég er upptekinn allan daginn alla daga. Mér finnst ekki góður bragur á því að þegar ríkisstjórnin skilar fjármálaáætluninni seint hlaupi þingið upp til handa og fóta og fórni faglegum vinnubrögðum til að kreista fram einhvers konar afgreiðslu á heilli fjármálaáætlun á örskömmum tíma. Mér finnst það ekki vera boðleg vinnubrögð. (Forseti hringir.) Áðan var ég að tala um eflingu Alþingis og ábendingar sem þingið fékk um fagleg vinnubrögð. (Forseti hringir.) Vinsamlegast laga þetta.