148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

um fundarstjórn.

[11:12]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nú verð ég í fyrsta skipti að vera ósammála samflokksmanni mínum, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, þegar hann notar orðið færiband. Það er rétt að við erum afgreiðslustofnun. Ég vil miklu frekar líkja ástandinu hérna við svona týpískan vertíðarkúltúr Íslendinga, þar sem við djöflumst í skorpum og tökum okkur svo langar pásur þess á milli. Til hvers hefur það leitt? Lægri framlegðar og framleiðni en aðrar þjóðir búa við.

Ég held að við þurfum að fara að taka þessi vinnubrögð til endurskoðunar. Við vöruðum við því að ef hæstv. fjármálaráðherra myndi ekki fara að lögum og birta fjármálaáætlunina á réttum tíma myndi það leiða til þess að við yrðum ofhlaðin. Hinar nefndirnar fá líka of lítinn tíma til þess að undirbúa sín viðbrögð við henni. Þannig að akkúrat í augnablikinu stöndum við við færibandið en ef þetta færiband væri sæmilega skilvirkt og við fengjum tækifæri til að hugsa gagnrýnið en ekki að lenda í þessari óþolandi skorpu sem við erum núna í væri það í lagi.