148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

um fundarstjórn.

[11:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Ég verð að taka undir orð annarra þingmanna um þetta verklag okkar við vinnslu fjármálaáætlunar. Ég er satt best að segja dálítið hugsi, við erum að fara í gegnum snarpa vinnulotu. Ég kveinka mér aldrei undan mikilli vinnu, ég kvíði því ekkert að sitja í fjárlaganefnd í næstu viku og klára þá fundalotu sem þar er stillt upp, en ég spyr mig um leið: Til hvers? Það er alveg augljóst í svona uppleggi þegar við erum að tala um liðlega 5 þús. milljarða ríkisútgjöld á fimm árum, við erum að tala um langtímastefnumörkun fyrir ríkissjóð, að þessari vinnu er stillt upp þannig að þinginu er ekki ætlað að gera neitt með þetta. Þinginu er ekki ætlað að vinna neitt með þetta plagg.

Framkvæmdarvaldið er búið að verja einhverjum mánuðum í að undirbúa þetta og ætlar þinginu að klára málið á viku eða tíu dögum. Við eyðum talsvert meiri og vandaðri vinnu í umræðu um fjárlög hvers árs. Ég segi eins og er, við getum allt eins sleppt þessu eins og (Forseti hringir.) að ætla að vinna þetta svona. Þetta hefur engan tilgang, það er augljóst að þinginu er ekki ætlað að gera nokkurn skapaðan hlut með þetta. (Forseti hringir.)Við rétt klórum í yfirborðið á þessari áætlun með þeim vinnubrögðum sem hér er lagt upp með. Þá skulum við bara leggja þetta (Forseti hringir.)af og vinna þetta með einhverjum öðrum hætti.