148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

um fundarstjórn.

[11:21]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég ætla ekki að standa í neinum leiðindum. Mér er bara annt um að þessi vinna sé til einhvers gagns. Ég kveinka mér ekkert. Við erum með hálfs mánaðar þinghlé vegna sveitarstjórnarkosninga, við getum hæglega setið í nefndavinnu á meðan. Við getum hæglega unnið lengra inn í sumarið. Ég hygg að ég hafi ekki staðið frammi fyrir jafn löngu „sumarleyfi“ frá því að ég var í grunnskóla. Ég veit að maður finnur sér vafalítið eitthvað til dundurs að vinna með í sumarvertíðinni en ég segi bara að ef þinginu er einfaldlega ætlað að stimpla þessa áætlun er kannski allt eins gott að hún komi fram sem fjármálaáætlun framkvæmdarvaldsins til kynningar. Ef þinginu er hins vegar ætlað að taka þessa áætlun til einhverrar þinglegrar meðferðar og sökkva sér ofan í þá krafta sem knýja áfram kostnað ríkissjóðs, ætla að hafa eitthvað um það að segja hvort þetta sé sett fram með vönduðum, réttum og raunhæfum hætti og (Forseti hringir.) á endanum skila sjálfstæðri niðurstöðu, verður þingið einfaldlega að fá tíma til að fara yfir málið. Ég kveinka mér ekkert undan því að sitja á fundum kl. 8–18 en ég myndi gjarnan vilja hafa tíma til að undirbúa og fara yfir niðurstöðu slíkrar yfirferðar. Sá tími er ekki veittur.