148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[11:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Sú fjármálaáætlun sem hér hefur litið dagsins ljós veldur vonbrigðum. Þetta hef ég rakið í fyrri ræðum mínum og undir það hafa m.a. tekið hagsmunasamtök launþega og Samtök iðnaðarins. Stóru fréttirnar í þessum efnum eru þær að áætlunin færir þeim sem höllum fæti standa í samfélaginu ekki nein gleðitíðindi. Seðlabankinn hefur varað sérstaklega við þeirri hagstjórn sem birtist okkur hér. Vaxtabætur, barnabætur og húsnæðisstuðningur eru ekki efst á vinsældalista ríkisstjórnarinnar. Þess sjást glöggt merki í þessari áætlun. Fjármálaáætlunin er bjartsýn í efnahagslegu tilliti á sama tíma og fjárfestingar fara minnkandi, ferðamönnum fækkar, skuldir heimila fara vaxandi og hagvöxtur er á niðurleið.

Ekki er hlustað á umsagnir og þau aðvörunarorð sem hafa birst frá fagaðilum. Ekki er horft í það að tekjur ríkissjóðs gætu dregist hratt saman á skömmum tíma. Ekki er fylgt eftir þeim grunngildum sem ber að gera samkvæmt lögum um opinber fjármál.

Ekkert er minnst á né tekið tillit til þess að kjarasamningar séu lausir í lok ársins. Þær breytingar sem hafa átt sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar að undanförnu gefa fullt tilefni til að ætla að komandi kjarasamningar verði erfiðir. Ný forysta hefur tekið við, eins og í VR og Eflingu, og ný forysta mun væntanlega líta dagsins ljós hjá ASÍ á komandi hausti. Þessi nýja forysta hefur lýst yfir mikilli óánægju með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ekki er það gott veganesti fyrir ríkisstjórnina inn í væntanlegar kjaraviðræður.

Skilningsleysi ríkisstjórnarinnar á málefnum lágtekjufólks eru skilaboð verkalýðshreyfingarinnar um þessa áætlun. Þetta er áfellisdómur sem mun draga dilk á eftir sér í komandi kjaraviðræðum. Orðalag á borð við „stefnt skal að“, „kanna“, „skoða“ og „endurskoða“, „móta og þróa“ kemur víða fyrir í þessari áætlun. Þetta er nokkuð lýsandi. Minna fer fyrir hugtökum eins og að „gera“ og „innleiða“. Í meginatriðum einkennist þessi áætlun af bjartsýni þegar kemur að verðmætasköpun, tekjum ríkissjóðs og hagvexti. Það er á skjön við það sem kom fram í meginþorra þeirra umsagna sem fjárlaganefnd barst um fjármálastefnuna og ég hef nefnt hér. Það er jákvætt að á tímabili fjármálaáætlunar skuli áfram unnið að því að lækka skuldir ríkissjóðs og undir lok tímabilsins, þ.e. árið 2023, skuli stefnt að því að skuldahlutfallið sem hluti af vergri landsframleiðslu verði komið niður í 21%. Það er athyglisvert að skuldastaða ríkissjóðs skuli nú að mörgu leyti vera mun sterkari en hún var fyrir hrun. Þar skipta höfuðmáli stöðugleikaframlögin svonefndu sem formaður Miðflokksins leiddi af mikilli festu og hæstv. forsætisráðherra þakkaði honum sérstaklega fyrir í umræðum í þinginu fyrir skömmu. Þó að vissulega sé mikilvægt að greiða niður skuldir þarf að ræða það opinskátt hér hvort skynsamlegra sé að greiða niður skuldir og á sama tíma liggja innviðir eins og vegakerfið undir skemmdum. Þetta er svipað og að eyða engu í viðhald á eigin húsnæði og á endanum fellur það í verði og verður jafnvel ónothæft. Innviðir eins og vegakerfi eru verðmæti sem verður að halda við, ekki síst vegna öryggissjónarmiða.

Eins og fram hefur komið ætlar ríkisstjórnin að bæta aukalega 5,5 milljörðum í sérstakt átak í samgöngumálum árlega næstu þrjú árin, frá 2019. Samtals gerir það 16,5 milljarða. Komið hefur fram að þetta verður fjármagnað með arðgreiðslum úr bönkunum. Í því sambandi má benda á að þessa upphæð hefði hugsanlega verið hægt að tvöfalda ef ríkisstjórnin hefði staðið í lappirnar í Arionbankamálinu. Rétt er að minna á að á fáeinum dögum, eftir að ríkisstjórnin seldi hlutabréf ríkisins í Arion banka á undirverði, kom tilkynning frá bankanum þess efnis að svigrúm væri til að greiða hluthöfum arð upp á 80 milljarða. Þarna varð ríkissjóður af a.m.k. 10 milljörðum, þökk sé þessari duglausu ríkisstjórn í þessu máli.

Herra forseti. Þessi fjármálaáætlun stendur ekki undir þeim stóru orðum sem ríkisstjórnin hefur haft uppi um uppbyggingu í vegamálum. Þótt vissulega beri að fagna auknum fjárveitingum til þessa mikilvæga málaflokks er þörfin langtum meiri eins og allir vita. Í heilbrigðismálum kemur ekki á óvart að halda eigi áfram uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Þar hafa stjórnmálaflokkar eins og Framsóknarflokkurinn svikið kjósendur sína með eftirminnilegum hætti. Framsókn lofaði nýjum spítala á nýjum stað fyrir kosningar og hélt m.a. blaðamannafund á Vífilsstöðum til að undirstrika loforð sitt. Ekki verður séð að auka eigi sérstaklega framlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

Kaflinn um landbúnað er athyglisverður. Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin greinilega engar áhyggjur af tollasamningi við Evrópusambandið sem tekur gildi 1. maí nk. Engar mótvægisaðgerðir eru boðaðar í fjármálaáætluninni til að mæta þeim miklu áhrifum sem tollasamningurinn kemur til með að hafa á innlenda búvöruframleiðslu. Framlög til landbúnaðar verða síðan lækkuð á næstu fimm árum. Það verður seint sagt að þessi ríkisstjórn sé eitthvað sérstaklega hliðholl bændum.

Fleiri málaflokka mætti nefna hér en tímans vegna verður það að bíða.

Herra forseti. Sannleikanum verður hver sárreiðastur, segir máltækið. Þetta birtist okkur hér í þingsal í gær með eftirminnilegum hætti í ræðu hæstv. forsætisráðherra um fjármálaáætlunina þegar sá sem hér stendur benti á þá staðreynd að vogunarsjóðir Kaupþings væru þeir sem fögnuðu þessari fjármálaáætlun, en þeir fá skattalækkun upp á 2 milljarða í þessari áætlun. Eldri borgarar og öryrkjar fagna ekki. Ég skil vel að hæstv. forsætisráðherra skuli vera reið yfir því að þurfa að standa hér fyrir framan þjóðina og segja henni að nú sé nauðsynlegt að lækka bankaskattinn um 5,7 milljarða, standa fyrir framan þjóðina og segja að nú sé nauðsynlegt að færa vogunarsjóðunum í Kaupþingi skattalækkun upp á 2 milljarða og hafa þeir nú fengið nóg frá þessari ríkisstjórn.

Ég skil vel að hæstv. forsætisráðherra sé reið yfir því að geta ekki leiðrétt kjör eldri borgara og afnumið krónu á móti krónu skerðingu öryrkja vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn bannaði henni að gera það. Hæstv. forsætisráðherra á að beina reiði sinni að réttum aðilum. Hún valdi sér það hlutskipti að hafa Sjálfstæðisflokkinn sem aftursætisbílstjóra, það hefur alltaf verið vitað að það er sérstakt áhugamál Sjálfstæðisflokksins að lækka skatta á fjármálafyrirtæki. Að sama skapi hafa eldri borgarar og öryrkjar ekki verið á forgangslistanum hjá þeim flokki. Að kalla málflutning þingmanna sem benda á sannleikann í þessu máli þvætting er dæmigerður málflutningur rökþrota forsætisráðherra sem veit upp á sig sökina, tiplar á tánum í kringum auðvaldið og gerir allt sem Sjálfstæðisflokkurinn segir henni að gera.

Stjórnmálaforingi Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, er á hátindi síns stjórnmálaferils. Hún er orðin forsætisráðherra þjóðarinnar og þjóðin hefur litið upp til hennar sem talsmanns þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Ég átti seint von á því, herra forseti, að hún stæði hér í þessum ræðustól og talaði fyrir því að lækka bankaskatt á fjármálafyrirtæki og vogunarsjóði en gæti ekki afnumið krónu á móti krónu skerðingu fyrir öryrkja og bætt kjör eldri borgara. Þetta eru staðreyndir sem forsætisráðherra þarf að lifa með, þetta er það sem fjármálaáætlunar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur verður minnst fyrir.