148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023. Ég vil í upphafi ræðu lýsa ánægju með það fyrirkomulag sem hefur verið á fyrri umr. um málið. Það má segja að við séum hér í þriðju og lokaatrennu í þessari fyrri umr. Umræðan finnst mér hafa verið málefnaleg og ég vil sérstaklega taka fram að samtal við fagráðherra finnst mér hafa tekist afar vel; er til þess fallið að dýpka umræðuna eins og hægt er að ætlast til í fyrri umr. um jafn viðamikið mál og slík áætlun er.

Í fyrri ræðu minni hér um málið fjallaði ég um lagagrundvöllinn, lög um opinber fjármál, þann umbúnað og það ferli, heildarstefnumótunarferli, sem slík fjármálaáætlun er hluti af; ríkisfjármálastefnu í því samhengi, með sínum fjármálareglum og grunngildum, hvar ramminn utan um áætlunina er mótaður, og svo fjárlögin sem byggja á stefnu og áætlun. Ég hef jafnframt fjallað um þá staðreynd að á u.þ.b. fjórum mánuðum, frá því að hæstv. ríkisstjórn lagði fram og staðfesti sinn stjórnarsáttmála, hefur hún lagt fram fjárlög fyrir 2018, ríkisfjármálastefnu sem samþykkt var sem þingsályktun á Alþingi 22. mars sl. og við ræðum hér nú nánari útfærslu málefnasviða og tilheyrandi málaflokka þeirrar stefnu. Þetta er auðvitað alveg ótrúlegt á jafn skömmum tíma en mér finnst mikilvægt hér í fyrri umr. að máta ríkisfjármálaáætlun við stefnu og sáttmála hæstv. ríkisstjórnar.

Það sem mér finnst umræðan hér hafa leitt fram — ef ég met þetta út frá þeirri gagnrýni sem hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna og samtölum þeirra við hæstv. ráðherra — er helst að hæstv. ríkisstjórn er einmitt að útfæra fyrirætlanir sínar sem birtast í stjórnarsáttmála. Hæstv. ríkisstjórn lagði upp með að styrkja samfélagslega innviði og lagði þegar í sáttmála sínum áherslu á að efnahagslegur styrkur sé forsenda þess að fara í raunverulega uppbyggingu innviða, uppbyggingu á okkar stærstu kerfum, heilbrigðiskerfi, samgöngukerfi, menntakerfi og velferðarkerfi; undirstaða þess að treysta megi til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, að hér sé gott að búa, að við aukum velsæld og lífsgæði og búum í haginn fyrir komandi kynslóðir. Lagt var upp með þetta í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar og var meginstefið og staða ríkisfjármála og ábyrg ríkisfjármál til framtíðar eru síðan grunnurinn að því að við getum fylgt þessum áformum eftir. Má kannski vitna til þessarar áætlunar sjálfrar, fjárfest er í innviðum og það var lykiláherslumál hæstv. ríkisstjórnar. Hér eru ráðgerðar á áætlunartímanum fjárfestingar í útgjaldarömmum og fjárheimildir til þeirra fyrir árin 2019–2023 sem nemur 338 milljörðum kr.

Verkefnið er að treysta og viðhalda efnahagslegum stöðugleika um leið og skapaðar verða forsendur fyrir áframhaldandi vexti sem vissulega er spáð að verði minni en undanfarin misseri; mælt í vergri landsframleiðslu liggur toppurinn 2016 eins og fram hefur komið. Þetta helst allt í hendur við ríkisfjármálin, fjármál ríkissjóðs, sveitarfélaganna, fyrirtækja í eigu hins opinbera, peningamálin og þróun á vinnumarkaði. Ég ætla að vitna hér í samantekt ríkisfjármálaáætlunar á bls. 16, með leyfi forseta. Þar segir:

„Með því er grunnur lagður að áframhaldandi tækifærum, kaupmætti og velferð allra landsmanna.“

Með því er vísað til þess að viðhalda efnahagslegum stöðugleika, hagvexti og kaupmætti, þeim aukna styrk sem hér hefur áunnist og við getum m.a. séð í nýbirtri skýrslu Seðlabankans sem snýr að fjármálastöðugleika. Þar kemur fram að styrkur heimilanna hefur ekki verið jafn mikill í hartnær 20 ár, tvo áratugi. Þegar við skoðum skuldirnar hefur skuldastaðan ekki verið betri, hvort heldur mælt á verga landsframleiðslu eða tekjur eða hreina eign. Þetta er mikilvægt. Það er ekki bara mikilvægt að ríkissjóður standi vel eða gangi vel og samstarfið við sveitarfélögin eða opinber fyrirtæki eða atvinnulífið almennt heldur staða heimilanna ekki síst sem hluti af okkar hagkerfi.

Það er rétt sem hefur komið fram, og verið bent á, að hagsagan er okkur ekki hliðholl þegar kemur að mjúkum lendingum. Staðreyndin er engu að síður sú að hagvöxtur er dvínandi og minni spenna gefur svigrúm fyrir útgjaldaaukningu næstu ár. Það hefur vissulega komið mjög skýrt fram hér í umræðunni að verið sé að auka útgjöld mikið og raunverulega, að raungildi. En þó hefur einnig komið fram í umræðunni að víða sé ekki nóg að gert. Það er auðvitað svo með jafn stórt mál og viðamikið sem snertir allt sviðið að hægt er að tína ýmislegt til.

Um það verður ekki deilt að verið er að auka verulega útgjöld til þessara stóru kerfa að raungildi. Útgjöld til heilbrigðismála verða aukin á tímabilinu um 19% að raungildi, uppsafnað, um 40 milljarða árið 2023, 57 milljarða að meðtöldu fjárlagaárinu. Verða þá útgjöld til heilbrigðismála 2023 orðin 249 milljarðar kr. Hæstv. ríkisstjórn lagði mikla áherslu á bætta heilbrigðisþjónustu og sáust þess þegar merki í síðustu fjárlögum, 2018, þar sem útgjöld voru aukin að raungildi um ríflega 9% og verða útgjöldin komin á ársgrundvelli á verðlagi ársins 2018 í 249 milljarða, eins og ég sagði.

Heilbrigðisútgjöld eru 29% af rammasettum útgjöldum í fjárlögum 2018. Ef við tökum ráðuneyti í heild og velferðarmál, félags-, húsnæðis- og tryggingamál, erum við með 56% í þessu ráðuneyti af heildinni í rammasettum útgjöldum í fjárlögum 2018. Þarna liggja gríðarlegar áskoranir og hæstv. ríkisstjórn er sannarlega að mæta þeim því að til þessara málefna, félags-, húsnæðis- og tryggingamála, fara 28 milljarðar uppsafnað á tímabilinu sem er 14% raungildisaukning. Það er miðað við verðlag ársins 2018. Um það bil 4 milljarðar fara þegar á þessu ári í kerfisbreytingar ætlaðar til að bæta kjör örorkulífeyrisþega sem hæstv. félagsmálaráðherra fór vel yfir í samtali og andsvörum við hv. þingmenn. Það er sannarlega mikilvægt að þessir fjármunir nýtist í það og nýtist vel og að sú vinna sem hæstv. ráðherra boðar skili sér í raunverulegri kjarabót. Því verðum við að fylgja vel eftir.

Það kom fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, að leggja yrði áherslu á, og það hefur m.a. verið rætt í hv. fjárlaganefnd, að fylgjast vel með og kalla eftir árangurs- og skilvirknimælikvörðum á hverju sviði þegar við erum að tala um jafn mikla fjármuni. Þetta er nokkuð sem við verðum að skoða vel á komandi misserum.

Í hagstjórnarlegu tilliti vil ég að lokum segja: Mikilvægt er að vel takist til og að við varðveitum þann árangur sem hefur náðst. Þessi áætlun er skynsamleg, þetta er skynsemisáætlun, og nú tekur við eftir gagnlega fyrri umr. um málið vinna í fagnefndum og nánari umfjöllun og rýni. Við tökum málið væntanlega til okkar í hv. fjárlaganefnd.