148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég held að ég hafi sjaldan heyrt orðið stórsókn nefnt jafn oft og í umræðu um fjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar og það er auðvitað ánægjulegt að sjá að líkt og allir flokkar í umræðum fyrir síðustu kosningar lögðu áherslu á er hér verið að forgangsraða útgjöldum ríkissjóðs í átt til velferðar, uppbyggingar innviða og eflingar menntakerfis. Það er jákvætt og auðvitað ber að fagna því. Um það held ég að séu ekki miklar deilur á þinginu, að þetta sé nauðsynleg og rétt forgangsröðun.

Það má auðvitað brosa góðlátlega að því þegar orðið stórsókn er notað ítrekað þó að vissulega sé verið að bæta aðeins í frá fyrri fjármálaáætlun en það er ekki með slíkum hætti að telja megi að blásið hafi verið til sérstakrar og skyndilegrar stórsóknar. Ég held að þvert á móti, ef við ætlum að vera sanngjörn, hafi verið lögð mjög mikil og aukin áherslu á þessa málaflokka og aukningu ríkisútgjalda til þeirra á undanförnum árum. Sú sókn hófst hvorki með framlagningu þessarar fjármálaáætlunar né fjárlaga síðasta árs, né fjárlaga þarsíðasta árs ef út í það er farið. Hér hafa ríkisútgjöld verið að aukast verulega allar götur frá 2013 og ég held að segja megi að skapast hafi sátt um að forgangsraða í þágu þessara verkefna fyrst og fremst, enda ærin þörf.

Það sem verkefnið fram undan snýst hins vegar um er að við höfum verið að auka útgjöld í krafti batnandi afkomu ríkissjóðs út af mjög sterkri stöðu íslenska hagkerfisins og það hefur auðvitað verið sagt: Það er ekki forsvaranlegt annað en að styrkja þessi kerfi á grundvelli sterkrar afkomu. Núna eru hins vegar öll teikn á lofti um að það sé tekið að kólna. En þá er rökstuðningurinn að hægt sé að halda áfram að auka útgjöldin af því að við þurfum að styðja við hagkerfið. Það er alveg rétt að það getur verið skynsamlegt að auka verulega í fjárfestingar af hálfu ríkisins þegar við erum komin niður í öldudalinn eða þegar við erum að nálgast hann. Við erum enn þá einhvers staðar nálægt eða við hápunkt og það er krafa af hálfu Seðlabanka að ríkið sýni aðgát til þess að geta skapað t.d. svigrúm til vaxtalækkana sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir atvinnulífið allt.

Þess vegna skiptir máli að ríkið sýni við kringumstæður sem þessar ákveðna ráðdeild í rekstri sínum, að það sé vissulega forgangsraðað til mikilvægustu verkefnanna en markmið um stöðuga útgjaldaaukningu getur ekki verið sjálfstætt markmið í stjórn ríkisfjármálanna. Hér virðist það markmið fyrst og fremst vera ofan á, það eigi að slá einhvers konar Íslandsmet í útgjöldum. Það sem er athyglisverðast í því er, þegar maður horfir síðan á markmiðin sem sett eru fram í fjármálaáætluninni og þegar við tökum tillit til þeirra umræðna sem hafa verið hér, t.d. við fagráðherrana, sérstaklega þá fagráðherra þar sem stærstu útgjöldin eru, þ.e. í menntamálin, heilbrigðismálin, velferðarmálin, að þau eru bara afskaplega óljós. Ég held að við verðum að gera verulega bragarbót á því í þinginu að skerpa á þeim markmiðum. Hverjir eru árangursmælikvarðarnir? Tökum t.d. menntamálin, þar er eitt meginmarkmiðið að við náum meðaltali OECD-ríkjanna þegar kemur að útgjöldum til háskólastigsins. Við vitum ekki einu sinni hvar við erum stödd, það er engar upplýsingar um það að finna í fjármálaáætluninni. Það væri ágætisbyrjunarpunktur að átta okkur á hvar við erum.

Annar ágætispunktur til að taka stöðuna út frá er hvort útgjaldamarkmiðið eitt og sér sé hið heilaga markmið í þessu eða hvort það sé árangurinn, hvað við fáum út úr menntakerfinu, sem skiptir máli. Ég held að það sé einmitt hið síðarnefnda sem skiptir meginmáli. Hvað erum við að fá fyrir það fjármagn sem verið er að veita inn í kerfið?

Hið sama á við í heilbrigðiskerfinu, það kom ágætlega fram í umræðum við hæstv. heilbrigðisráðherra að hún hefur mjög óljósa hugmynd um það hvort fjármagninu sem nú þegar er varið í heilbrigðiskerfið sé vel varið, í hvað það renni, að það skili þeirri skilvirkni sem við viljum sjá. Á endanum erum við alltaf að biðja um að gæði þjónustunnar skipti öllu máli, ekki hvað hún kostar. Hún má gjarnan vera ódýr ef hún er á háu gæðastigi. Það er ekki markmið og alls ekki skynsamleg nálgun að leggja upp í fimm ára áætlun með það meginmarkmið eitt að auka útgjöldin verulega. Það þarf að vera miklu skýrari sýn á hvað við viljum fá fyrir fjármagnið og þá sýn er, til að gæta sanngirni, sums staðar að finna í þessari fjármálaáætlun en alls ekki á þessum stóru útgjaldasviðum eins og velferðarmálunum, heilbrigðismálunum og menntamálunum. Þess sakna ég. Þá gagnrýni má líka alveg færa yfir á síðustu ríkisstjórn, markmiðin eru um margt keimlík því sem var í fyrri fjármálaáætlun. Ég held að við þurfum að skerpa verulega á þessu. Við þurfum að vera með færri markmið í fjármálaáætluninni. Ég held að það séu ein 340 markmið sem sett eru fram, ég held að það væri ágætt að við myndum sammælast um 40–50 meginmarkmið fjármálaáætlunar fyrir helstu málefnasvið þannig að við eigum auðveldara með að fylgjast með hvernig okkur miði.

Það er grundvallarvandamálið þegar kemur að mati á árangri okkar í ríkisfjármálunum, þegar kemur að mati á gæðum heilbrigðiskerfisins, að gæðavísarnir eru afskaplega fáir og samanburðurinn afskaplega erfiður. Ef við horfum á samanburð okkar í bæði heilbrigðismálum og menntamálum innan OECD-ríkjanna skilum við auðu í stórum hluta þessara gæðavísa því að við erum ekki að mæla þá. Það er lykilatriðið. Ef við ætlum að ná árangri í ríkisrekstri þurfum við að vera með skýra gæðavísa og við þurfum að mæla þá. Það er ekki sjálfgefið að aukin útgjöld skili meiri gæðum. Það þekkja menn vel úr hverjum þeim rekstri sem þeir koma nálægt að oft geta ódýru lausnirnar verið þær bestu líka.

Það er annað sem er alveg augljóst að fylgir ekki útgjaldastefnu eins og hér er boðuð, það er einmitt ráðdeild. Það er ekki mikla umræðu að finna í þessari fjármálaáætlun um hvernig við getum bætt árangur ríkisrekstursins, hvernig við getum hagrætt. Hvernig getum við mögulega nýtt kosti einkaframtaksins á einhverjum sviðum, útvistað verkefnum, aukið samkeppnisstig í ríkisrekstri til þess einmitt að ná meiri árangri fyrir minna fé? Þessa sakna ég verulega.

Þegar maður horfir yfir þetta og þá umræðu sem verið hefur þá er ekkert rosalega mikil pólitík í þessari ríkisfjármálaáætlun. Þetta er bara útgjaldapólitík. Það er rosalega auðvelt að sammælast um hina ýmsu hluti ef allir fá nægt fjármagn til sinna draumaverkefna. Þegar aldrei þarf að forgangsraða, þegar ekki þarf að hafna neinu, er mjög auðvelt að ná málamiðlunum. En það er miklu mikilvægara, sér í lagi þegar vel árar, að menn horfist í augu við að við getum ekki gert allt fyrir alla öllum stundum. Það er það sem ég hef mestar áhyggjur af, af langtímasjálfbærni ríkisútgjalda á því hagvaxtarstigi sem við búum við. Það er nefnilega fyrst og fremst verið að auka útgjöld ríkissjóðs, ekki fjárfestingar. Vissulega erum við að ráðast í mikilvæga uppbyggingu á nýjum Landspítala en að öðru leyti er fyrst og fremst verið að auka rekstrarútgjöldin verulega. Ég leyfi mér að fullyrða að ríkissjóður mun ekki hafa efni á þessu þjónustustigi í meðalárferði í hagkerfinu. Við erum með gríðarlega mikið tekjuinnflæði út af þenslu í hagkerfinu núna og við höfum séð að alltaf á þessum tímapunkti í hagsveiflunni er innflæðið inn í ríkissjóð gríðarlega sterkt en það er skammvinnt. Síðan dregur verulega saman í tekjunum þegar einkaneyslan nær eðlilegu jafnvægi aftur þegar dregur aðeins úr vaxtarhraðanum og hagnaði atvinnulífsins og þá þrengir að. Þess þarf auðvitað að gæta að við stillum grunnrekstur ríkissjóðs þannig af að það sé afgangur við eðlilegt ástand í hagkerfinu, ekki bara að við rétt skríðum í plúsinn akkúrat í hápunkti þenslunnar.

Við höfum gert þessi mistök áður og það er kannski hægt að virða Sjálfstæðisflokknum það til vorkunnar að hann hefur aldrei verið neitt sérstaklega ábyrgur í fjármálastjórnun en Vinstri græn hafa hins vegar nýlega þurft að taka til eftir slíka útgjaldaþenslu og maður hefði haldið að lærdómurinn þar væri langvinnari en hér er að finna.

Það fáum við hins vegar að fara betur yfir í umfjöllun í fjárlaganefnd um þetta mikilvæga plagg en það eru mér vonbrigði að horfa upp á það eina ferðina enn að þrátt fyrir öll þau varnaðarorð sem hafa verið höfð uppi af hálfu fjölmargra aðila um efnahagslegar forsendur þessarar fjármálaáætlunar (Forseti hringir.) virðast menn ætla að skella skollaeyrum við því. Það gerir ábyrgð stjórnmálanna enn meiri þegar raunveruleikinn starir síðan framan í okkur og tekið er að draga saman í hagkerfinu á nýjan leik.(Forseti hringir.)

Ég held að ef forstjóri í einhverjum rekstri kæmi inn með áætlun sem þessa til stjórnar yrði honum fylgt út hið snarasta, (Forseti hringir.)hann þyrfti ekkert endilega að koma aftur í vinnuna. Þetta er ekki ábyrg ríkisfjármálastefna, þetta er ekki sjálfbær ríkisfjármálastefna.

(Forseti (BN): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)