148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér við lok umræðunnar langar mig að segja nokkur orð. Í fyrsta lagi vil ég þakka fyrir ágætlega málefnalega yfirferð yfir þessa fyrstu fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar og þann tíma sem gefinn hefur verið í þinginu til að ræða hana ítarlega. Það má svo sem alltaf búast við að tekist sé á um stefnu nýrrar ríkisstjórnar í upphafi kjörtímabils þegar lagðar eru línur um fjármál hins opinbera inn í framtíðina en mér finnst ekki hafa verið mjög skýr tónn í þinginu heldur hefur verið ráðist gegn þeim áformum sem hér birtast úr mjög ólíkum áttum. Sumir segja í umræðunni, eins og hv. síðasti ræðumaður, hv. síðasti þingmaður sem talaði hér, Þorsteinn Víglundsson, að allt of miklu sé eytt, að þetta sé ekki ábyrgt, hér sé kynnt til sögunnar óábyrg stefna.

Ég vænti þess að þeir sem tala þannig muni þá kynna til sögunnar önnur áform, breytingar, nýja uppstillingu á fjármálum fyrir ríkið inn í framtíðina í nefndaráliti þar sem fallið verður frá skattáformunum í þessari áætlun og dregið úr útgjöldunum. Það verður þá hlutverk þeirra að forgangsraða í niðurskurðinum, borið saman við þetta skjal hér, hvar hann eigi helst að koma niður. Þar er af mestu að taka í velferðarmálum og menntamálum og síðan í samgöngumálum og öðrum slíkum þáttum vegna þess að menn verða þá að loka sínum málflutningi. Það gengur ekki að vera eingöngu með málflutning um að ekki sé hægt að draga úr tekjuöflun og ekki hægt að auka útgjöldin jafn mikið og hér er kynnt en botna síðan ekki þá vísu.

Ég ætla að leyfa mér að vísa hér í nýtt rit frá Seðlabankanum sem var kynnt í gær. Þar er aðeins farið yfir það hver staðan er í dag. Fjárhagsstaða heimilanna er sterkari í dag en hún hefur verið í 20 ár, skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu hafa ekki verið lægri í 20 ár, skuldir heimilanna sem hlutfall af tekjum hafa ekki verið lægri í 20 ár og eignastaða heimilanna sú mesta sem við höfum séð yfir þetta sama tímabil.

Þetta eru vísbendingar um að við séum á réttri leið. Í þessu riti er gert ráð fyrir að við höldum áfram að greiða upp skuldir og við höldum okkur réttum megin við núllið í ríkisrekstrinum. Því var haldið fram í einni ræðunni sem var flutt í dag að Sjálfstæðisflokkurinn væri þekktur fyrir að stunda ekki mikla ábyrgð í opinberum fjármálum. Ég ætla að vísa til þess í fyrsta lagi sem kemur fram í þessu nýjast riti og til hins að á undanförnum árum hefur okkur tekist að greiða upp skuldir í stórum mæli, lækka vaxtagjöld ríkissjóðs þannig að við erum að komast aftur í vaxtagjöldunum í fyrirhrunshlutföll sem eru að verða mjög viðráðanleg. Sömuleiðis ætla ég að leyfa mér að vísa til þess að verðbólga hefur verið með minnsta móti í langan tíma sem mér finnst að eigi ávallt að vera alveg sérstakt áhersluefni.

Ég þreytist ekki á að rifja það upp að öll mín uppvaxtarár í þessu landi var verðbólgan gríðarleg. Hún var yfir 20% á hverju ári og fór aldrei undir það frá því að ég gekk inn í leikskóla og þar til ég fór í háskólann. Aldrei undir 20% og oft miklu hærri, 30, 40, það komu ár þar sem verðbólgan fór hærra en það, en nú lifum við tíma þar sem okkur hefur tekist að ná tökum á verðbólgunni og ég segi fullum fetum að opinberu fjármálin leggja þar lóð á vogarskálarnar. Stór hluti þeirrar gagnrýni sem hefur birst hér í fyrri umr. snýr að hagspám. Ég segi bara að við höfum ekkert annað í höndunum en þær hagspár sem eru gefnar út og við byggjum hér á hagspá Hagstofunnar. Menn geta leyft sér að draga í efa að hún muni standast en við munum auðvitað bregðast við. Ef það kólnar hraðar og dregur úr tekjuöflun ríkissjóðs kallar það á viðbrögð og þar verður leiðarljósið fjármálastefnan sem við erum nýbúin að samþykkja þar sem við stillum upp áformum okkar um tekjur og gjöld og afkomu. Mikilvægust þar er skuldaþróunin og afkomuþróunin og varðandi þá fyrirvara sem menn kalla eftir að menn geri við hagspár er sannarlega getið um þá hér í fjármálastefnunni. Bent er á það að þetta séu spár sem taki til langs tíma og séu upp á kommustaf úr vergri landsframleiðslu og eftir því sem menn horfðu lengra inn í framtíðina, þeim mun ónákvæmari vísindi séu menn hér að stunda. Af þeim sökum er alveg sjálfsagt að taka undir með fjármálaráðinu sem hefur talað um að við ættum kannski að vera að hugsa þetta í einhverjum bilum þegar við erum að horfa svona langt inn í framtíðina varðandi afkomu- og skuldaþróun.

Ég tek undir það. Það sem hefur kannski helst staðið út af í þeirri umræðu er spurningin: Bjóða lögin eins og þau standa í dag upp á að við stillum þessu upp á einhverju ákveðnu bili eða ekki? Ég hyggst höggva á þann hnút ef þörf krefur með lagabreytingu, tillögu hingað til þingsins, um að við einfaldlega þá breytum lögum um opinber fjármál þannig að við getum inn í framtíðina verið að tala um markmiðin á einhverju bili. Þetta skiptir auðvitað máli eftir því sem maður horfir lengra inn í framtíðina.

Þetta skiptir miklu máli vegna þess að þegar um fjármálastefnuna er að ræða þarf eitthvað meiri háttar mikið að koma upp á til að hún fáist endurskoðuð. Í því tilliti er svolítið erfitt að vera að vinna með markmið sem eru upp á kommustaf.

Mig langar að láta þess getið hér að það hefur komið nokkuð á óvart hversu lítið hefur verið rætt um stórmál eins og t.d. sölu fjármálafyrirtækja. Nú er staðan sú að íslenska ríkið er stærsti eigandi að eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum þegar horft er til hlutfalls af landsframleiðslu í Evrópu. Enginn annar ríkissjóður fer með stærri hlut af landsframleiðslu sem eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Þetta ætti að hafa orðið okkur meira tilefni til umræðu þegar við horfum fimm ár fram í tímann. Ég átti satt best að segja von á því að stærri hluti umræðunnar hér yrði um það hversu langt við ættum að ganga í að losa um eignarhlut ríkisins í framtíðinni. Sannarlega erum við að boða alveg sjálfstæða umræðu um það með því að setja þessa hvítbókarvinnu af stað. Hér er engu að síður gert ráð fyrir því að við munum með einhverjum ráðstöfunum, mögulega sölu eða öðrum ráðstöfunum, hafa tekjur og sjóðstreymi — kannski ekki tekjur vegna þess að eignarhlutir ríkisins hafa þegar verið tekjufærðir — til að greiða upp skuldir á áætlunartímabilinu sem er nokkuð umtalsvert eða yfir 100 milljarðar.

Ég vek þá athygli á því að ef til þess kæmi að ríkið seldi 100 milljarða hlut eða jafnvel meira en það, jafnvel allan hlutinn í Íslandsbanka á næstu fimm árum, væri það langstærsta einkavæðing sem við hefðum nokkurn tímann ráðist í. Þó að hér hafi ekki farið mikið fyrir umræðu um þetta mál vænti ég þess að hún muni fara fram síðar. Ég nefni þetta í tengslum við umræðu um skuldaþróunina og varfærni sem menn, margir hverjir, vilja sjá í opinberum fjármálum, að sýnd sé meiri varfærni í meðferð þessara mála. Þarna liggja auðvitað gríðarleg verðmæti sem hægt væri að ráðstafa til að auka enn frekar á varfærni fram í tímann, draga úr áhættu ríkisins við að halda á slíkum hlut og ráðstafa söluandvirðinu til uppgreiðslu skulda og/eða annarra uppbyggingarverkefna.

Ég ætla ekki í lok ræðu minnar að ítreka helstu áherslumál þessarar þingsályktunartillögu, þær áherslur komu allar fram í framsögu minni í upphafi. Mér finnst bara mikilvægt að nýta þetta tækifæri til að segja að við munum að sjálfsögðu bregðast við ef hagspár breytast. Það er eðlilegur hluti þessarar vinnu að þurfa að gera það. Við förum í gegnum þessa vinnu á hverju ári.

Menn gagnrýna líka markmiðssetninguna. En þá vil ég byrja á að segja: Ja, við erum þó a.m.k. farin að ræða markmið ráðuneyta í fyrsta sinn af einhverju viti. Við erum í fyrsta sinn farin að setja hér tölusett markmið, tímasett. Hvert er markmiðið? Hvernig tengist það stjórnarsáttmálanum? Hver er staðan í dag? Hvert er viðmiðið 2019? Og síðan árið 2023? Ég fagna allri umræðu um það hvernig við gætum gert þetta betur. En þetta er alveg nýr veruleiki í allri umræðu um opinber fjármál.

Ég ætla þá að nota mín síðustu orð til að óska eftir góðu samstarfi við fjárlaganefnd. Ég mun bregðast við hverri ósk þaðan um skýringar og aðstoð við (Forseti hringir.) að lesa í grunngögnin. Ég þakka að öðru leyti fyrir ágæta umræðu hér í þinginu.