148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[14:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Það sem mig langar að bæta við á þessum tveimur mínútum sem maður hefur í þessu fyrra slotti er að það er alveg hárrétt, ég er sammála ráðherra með það, að auðvitað þarf ríkisvaldið og í þessu tilfelli utanríkisþjónustan að vinna áfram náið með atvinnulífinu. Það er ágætissamband þarna á milli þegar við þurfum að láta að okkur kveða. Við getum eflaust bætt ýmislegt. Við getum unnið meira saman í að sjá til framtíðar, kortleggja hvar við ætlum að vera þegar við horfum til lengri tíma litið, hvar sóknarfærin eru og hvar við eigum mögulega að draga í land o.s.frv.

Heimurinn er einhvern veginn alltaf að minnka eða gerði það í það minnsta, maður veit svo sem ekki hvernig þróunin er í dag þegar kemur að viðskiptum, það eru ýmsar blikur á lofti. Heimurinn var alltaf að minnka. Löndin voru alltaf að nálgast hvert annað þegar kom að viðskiptum. Það var orðið einfaldara að gera alla hluti. Við þurfum að sjálfsögðu að vera þátttakendur í því. Við þekkjum vitanlega og sjáum hvernig áherslurnar eru í löndum sem eru kannski ekkert miklu stærri en við, ég nefni bara Danmörku, þegar kemur að viðskiptum og slíku, svo ég tali ekki um Norðmenn þar sem fara 100 manna sendinefndir ef þarf að selja lax einhvers staðar, með miklar viðskiptaskrifstofur og gott tengslanet og allt slíkt. Við erum að sjálfsögðu minni, ég geri mér grein fyrir því, en ég held að sú staðreynd að við séum með t.d. í Moskvu sjö starfsmenn, í Peking sjö, í New York sex og hálfan, í Sameinuðu þjóða hlutanum og tvo aðra í skrifstofunni og síðan 2,8 í Ottawa, allt eru þetta gríðarlega spennandi ríki til að eiga viðskipti við, ég tala nú ekki um Asíu, sýni að við hljótum á einhverjum tímapunkti að þurfa að bæta svolítið í.

Ég þakka svarið varðandi UNESCO. Ég skil það, en við getum velt fyrir okkur hvort við hefðum viljað nota þessar 50–60 milljónir eða hvað það er í eitthvað annað. En það er nú eins og það er.