148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:17]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra talar um að ég leggi áherslu á að við höldum jafnréttismálunum alls ekki á lofti á alþjóðavísu. Þannig talaði ég alls ekki. Mér þykir leitt ef mál mitt hefur komist þannig til skila. Ég sagði að við ættum að halda áfram að leggja áherslu á kynja- og jafnréttismál á alþjóðavettvangi, breikka aðkomu okkar enn frekar í þeim málum og skerpa það og gera það starf markvissara.

Ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra sé á leiðinni til Svíþjóðar að tala á ráðstefnu og hitta kollega sína í utanríkismálum. Svíar eru sannarlega mjög framarlega þegar kemur að því.

Þegar kemur að mörkuðum og þróunarsamvinnu held ég að hæstv. utanríkisráðherra og ég deilum ekki sömu skoðun hvað varðar forgangsröðun í þróunarsamvinnu. Ég held að opnun markaða sé ekki forgangsmál hjá fólki sem lifir undir fátæktarmörkum og lifi við það að fá aðstoð í formi þróunaraðstoðar. Ég held að það sé kannski á öðrum stigum. En ég styð alltaf utanríkisstefnu og þjónustu Íslands þegar kemur að því að liðka fyrir framgangi og kynningu íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægur hluti af utanríkisþjónustunni og hefur verið hingað til. En að það eigi sér stað innan þróunarsamvinnunnar, þar er ég kannski ekki alveg á sama báti og hæstv. utanríkisráðherra.