148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:21]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast við samkomulagið sem gert var í Addis Ababa þegar kemur að því að liðka fyrir því að koma fyrirtækjum á stofn o.s.frv., eins og það sé kannski stærri hluti þróunarsamvinnunnar en áður. Ég held samt sem áður að forgangsröðun í þróunarsamvinnu eigi að miðast við aðstæður fólks sem lifir í örbirgð, fátækt og við ógn á stríðshrjáðum svæðum; í þróunarríkjum þar sem fólk er einfaldlega að reyna að hafa í sig og á og koma börnum sínum á legg og skjóli yfir höfuðið. Það er neyðaraðstoð sem þróunarsamvinna snýst að mestu leyti um.

Síðan er annar angi að valdefla konur og sérstaklega ungar konur. Það hefur oft verið í formi þess að efla konur fjárhagslega og efnahagslega. En þegar við tölum um opna markaði og að það skuli fellt inn í þróunarsamvinnu þá, eins og ég sagði hér áðan, erum við einfaldlega ekki alveg sammála, ég og hæstv. utanríkisráðherra. En ég hvet hann til dáða þegar kemur að því að efla þróunarsamvinnuna, að efla framlög okkar og ganga skýrt úr skugga um að þeim fjármunum sé vel varið til þeirra sem mest þurfa á því að halda.

Ég óska hæstv. utanríkisráðherra góðrar ferðar til fundar með Margot Wallström. Ég held að þau geti væntanlega lært mjög mikið hvort af öðru. (Gripið fram í.) Vonandi kemur hæstv. utanríkisráðherra uppfullur af nýjum hugmyndum er varða jafnréttismál í utanríkisþjónustunni frá Svíþjóð.