148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þetta og að undirstrika sérstöðu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Þetta er í fyrsta sinn sem sósíalistar leiða ríkisstjórn á Íslandi með þá skoðun að Ísland eigi að vera utan NATO.

Það þurfti að skýra það betur og þess vegna gengum við eftir því hvað það þýddi. Mér fannst mikill bragur á því þegar hæstv. forsætisráðherra kom í utanríkismálanefnd og gerði grein fyrir því að undir forystu VG myndi ríkisstjórnin fylgja eftir þjóðaröryggisstefnunni á grundvelli málamiðlunarsamkomulags. Það var skýrt. Það skiptir máli að það sé skýrt, því að eins og við heyrðum áðan hjá hæstv. utanríkisráðherra er margt mjög óljóst í því hver stefna Íslands er í hinum og þessum málum, í mikilvægum málaflokkum.

Við fetum okkur eftir þessari braut, við erum að reyna að skýra stefnu Íslands undir forystu þessarar ríkisstjórnar. Það er skýrt að ríkisstjórnin, undir forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, mun styðja ekki bara þjóðaröryggisstefnuna eins og hún hefur verið samþykkt, af því að það er þingræðið sem hefur réttilega ákveðið að eftir henni verði farið, heldur mun hún ekki síður halda áfram að tala fyrir hönd Íslands á fundum, m.a. innan NATO. Ég er ekki eins uggandi um þetta og ég var í byrjun. Ég var þegar byrjuð að upplifa að einn ráðherra segði eitt og annar ráðherra hitt. Það sem má ekki gerast í utanríkismálum er að utanríkisráðherra og forsætisráðherra tali ekki sama tungumál, ekki síst á m.a. leiðtogafundum NATO.