148. löggjafarþing — 49. fundur,  13. apr. 2018.

utanríkis- og alþjóðamál.

510. mál
[15:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég treysti hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra mjög vel til þess að tala alls staðar fyrir hagsmunum Íslands og leggja áherslu á það sem við þó öll erum sammála um, þ.e. að Ísland eigi að beita sér fyrir friði og öryggi í heiminum. Ég treysti þeim mjög vel til þess að samræma ólík sjónarmið, því að eins og við vitum þá tilheyra þessir hæstv. tveir ráðherrar mjög ólíkum flokkum. Þetta er nú ekki alveg ókunnuglegt fyrir hv. þingmann sem er sjálf í flokki sem starfað hefur í ríkisstjórn þar sem voru skiptar skoðanir um annað utanríkismál sem er aðildin að Evrópusambandinu. Ég get ekki betur séð en að þrátt fyrir þau ólíku sjónarmið hafi tekist ágætlega með pólitík þeirra að vinna að ýmsum öðrum málum.

Það er ákveðin hefð eða menning á Íslandi að hér starfi meirihlutastjórnir ólíkra flokka. Þá verða auðvitað allir að gera málamiðlanir. En á sama tíma hljótum við öll sem tilheyrum þessum flokkum að tala fyrir okkar stefnu, fyrir okkar áherslum og að vinna þeim brautargengi eins og við getum. Ég bind vonir við ríkisstjórnarþátttöku Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og að við getum lyft málflutningi okkar, að það verði til þess að auka umræðuna, til að mynda um veru okkar í NATO, og þannig lyfta undir skoðanir okkar þannig að þær öðlist meira brautargengi í samfélaginu.