148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hér hafa menn verið að velta því fyrir sér hvort legið hafi fyrir samþykki þingflokksformanna fyrir því að vera inn í kvöldið. Það er álitamál hvernig formið á að vera í þeim efnum en ég verð að játa að eftir þingflokksformannafund gerði ég ráð fyrir að fundað yrði hér fram á kvöldið. Mig minnir að forseti hafi orðað það með einhverjum hætti að svo gæti verið og að enginn hafi hreyft andmælum við því.

Þetta segi ég eftir minni og held að ekki hafi átt að koma á óvart að gert yrði ráð fyrir lengri þingfundartíma í dag miðað við þau mál sem eru á dagskrá og miðað við að ekki verður um frekari þingfundi að ræða næstu daga.

Varðandi viðveru ráðherra held ég að forseti og ráðherrar leggi að jafnaði mikið á sig til þess að þessar upplýsingar liggi fyrir með sem bestum fyrirvara, en frá því verða auðvitað einhver frávik. Ég held að það megi segja að hér eru ráðherrar mikilvægra og stórra málaflokka sem ekki komast alltaf að í óundirbúnum fyrirspurnatíma sem er þá tækifæri fyrir fulltrúa stjórnarandstöðunnar og aðra að spyrja á þessum þingfundi.