148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:13]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill bregðast við þótt enn séu þrír á mælendaskrá, þar sem þeir tilheyra þingflokkum sem þegar hafa átt frummælendur í umræðunni, og svara sem eðlilegt er. Í fyrsta lagi tek ég undir það að það er afar óheppilegt að skyndilegar breytingar verði á viðveru ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Almennt gerist það sem betur fer sjaldan og oftast hefur haldið sá listi sem legið hefur fyrir með nokkrum fyrirvara. Í þetta sinn er hvort tveggja að fáir ráðherrar eru til svara og ein breyting varð á, þ.e. má segja að hafi verið skipt inn á dómsmálaráðherra fyrir heilbrigðisráðherra.

Ég kannaði í morgun hjá forsætisráðherra hvort fleiri ráðherrar gætu verið viðstaddir hinn óundirbúna fyrirspurnatíma en ástæður þess að margir eru fjarverandi eru m.a. að fram fer á sama tíma og við erum hér að tala aðalfundur Samtaka atvinnulífsins og þar eru nokkrir ráðherrar tepptir.

Í öðru lagi vil ég segja að á mánudaginn var, fyrir viku, var lagt upp þinghaldið út þá viku sem liðin er og eins þessi dagur í dag. Þá var tillaga mín sú að inn á þá dagskrá kæmu frumvörp þeirra ráðherra sem ekki kæmu sínum málum að á þriðjudaginn var. Þá var ljóst að það yrði þar af leiðandi nokkuð langur fundur í dag, þ.e. gæti þurft nokkuð langan fund. Það má kalla það rétt að ekki hafi formlega verið gengið eftir því hvort samkomulag væri um þetta, að fundur gæti staðið lengur en þingsköp gera ráð fyrir, en enginn hreyfði andmælum við þessu uppleggi sem þarna var kynnt og var sent út til allra þingflokksformanna á föstudaginn var. En kannski hafa þeir verið að undirbúa hátíðahöld og ekki tekið eftir þeirri útsendingu.

Ef ekki er samkomulag um að þingfundur geti staðið lengur í kvöld, eða öllu heldur þingfundir, því að þingfundi verður væntanlega skipt í tvennt, er það tillaga forseta og þá verða greidd atkvæði um hana í upphafi seinni fundarins.

Í þriðja lagi er spurt af hverju ekki fari fram kosningar í dag sem áður voru á dagskrá. Svarið við því er að þær eru því miður ekki alveg tilbúnar, það sem kjósa skal. Það var ekki komin niðurstaða í því að öllu leyti hjá þingflokkum sem áttu að tilnefna sína fulltrúa, t.d. hvað varðar útvarpsráð. (HKF: Skýrslubeiðnin.) Varðandi skýrslubeiðni barst forseta bréf í dag frá utanríkisráðuneytinu með athugasemdum sem forseti ætlar að gefa sér tíma til að fara yfir. Ég hef þegar upplýst fyrsta flutningsmann skýrslubeiðninnar um að af þeim sökum frestist atkvæðagreiðslan.

Þá má bæta við að allt stefnir í að boðaður verði stuttur þingfundur fyrir kosningar á miðvikudaginn kemur, þegar að loknum þingflokksfundum, vegna þeirra kosninga sem við þurfum að fresta í dag. Ég bið hv. þingmenn að vera undir það búna að þær kosningar sem frestast í dag færist yfir á stuttan fund sem settur verður eingöngu í því skyni á miðvikudaginn, að kjósa þá það sem hægt verður að kjósa.

Þetta eru svör forseta. Óska hv. þingmenn eftir að halda til streitu að ræða fundarstjórn forseta engu að síður?