148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði að vekja athygli á orðum hv. þm. Birgis Ármannssonar hér áðan og virðulegs forseta um dagskrá þeirra þingmála sem verða rædd á næstunni og nú í dag.

Minn skilningur var sá að ef ekki næðist að klára stjórnarþingmálin sem voru á dagskrá á síðasta þriðjudag myndu þau ganga yfir á mánudaginn. En þau voru öll kláruð. Það var engin spurning um að það kæmu fleiri mál. Miðað við það hvernig þessi hringlandaháttur virðist vera þá held ég að það sé bara komið á það stig að við þurfum að fá tillögur forseta skriflegar til að það sé skýrt hvað verið er að samþykkja, hvað er samþykkt og hvað við erum að fara að gera hér á næstunni. Það gengur ekki að það gangi bara manna á milli, þetta var sagt og hitt var sagt, og svo gengur það þvert og í kross.

Ég legg það til við forseta að tillögur forseta um lengda þingfundi, mál sem eru á dagskrá, verði einfaldlega skriflegar héðan í frá.