148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:22]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Mig langar að halda aðeins áfram með þessa umræðu um skýrslubeiðnina sem er verið að fresta. Ég verð að viðurkenna ég er ekki skarpari en svo að ég átta mig bara illa á því af hverju símtal frá utanríkisráðuneyti getur stoppað hér, að minnsta kosti í tvo daga ef ekki lengur, skýrslubeiðni um áskilinn fjölda þingmanna á þessari skýrslu. Þetta er nú vægast sagt frekar mikið samtímamál. Skýrslubeiðnin hefur verið tafin töluvert, velkst um hjá utanríkismálanefnd í töluverðan tíma. Það er einfaldlega ekki verið að biðja um annað með vísan til 54. gr. þingskapalaga en að utanríkisráðherra skili skriflegri skýrslu um framkvæmd og ábyrgð á alþjóðlegum skuldbindingum sem varða leyfisveitingar eða undanþágur vegna vopnaflutninga þar sem farið verður í verkferla, ábyrgðarkeðjuna og hið pólitíska verklag. Ég verð að segja að þessi vandræðagangur við að koma þessari skýrslu hér, að uppfylltum öllum skilyrðum, í gegnum þingið er farinn að vekja hjá mér spurningar.