148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég verð að lýsa yfir ánægju minni með að hv. þm. Birgir Ármannsson virðist þekkja hug forseta sérlega vel. Ef við þekktum hann hefðum við mögulega fengið einhvers konar skýringar á þessu. Þá væru engar samsæriskenningar uppi heldur værum við einfaldlega upplýst um gang mála. Og um það snýst umræðan, við erum að óska eftir því að betra samráð verði haft við okkur um starfsemi þingsins, að þögn sé ekki sama og samþykki, sem er ekki lengur vinsæll málsháttur, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) bara svo ég haldi því til haga, bara hreinlega ekki. Að við höfum það á hreinu og að við séum dugleg að miðla upplýsingum hvert til annars. Við þingflokksformenn getum tekið það til okkar; kannski þurfum við að vera skýrari í því hvað við teljum vera samþykki og hvað ekki, en augljóslega hlýtur allt að byggja á því að hér sé betri upplýsingagjöf til okkar um hvaða ráðherrar séu viðstaddir óundirbúnar fyrirspurnir, að við fáum að vita það tímanlega, og hvers vegna sé verið að fresta einhverri skýrslu að beiðni utanríkisráðuneytisins og hvers vegna þingfundir standa lengur yfir í dag án þess að við vissum nokkuð um að það stæði til.

Upplýsingar!