148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:30]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill þá í fyrsta lagi biðjast velvirðingar á því að hafa gert mislukkaða tilraun til að slá á létta strengi hér fyrr í umræðunni. Það féll ekki í góðan jarðveg og ég bara biðst velvirðingar á því. Það var ekki ætlað til að tala niður til þingmanna eða óvirða þá á nokkurn hátt. Þeir fylgjast vel með sínum tölvupóstum o.s.frv.

Í öðru lagi vil ég segja að þau mál sem voru tekin út af dagskrá, 2., 3. og 4. dagskrármálið, eru umræðulaus mál. Það eru kosningar án umræðu þannig að ekki er um það að ræða að raskað sé stórlega undirbúningi þingmanna hvað það snertir, að menn hafi ekki undirbúið þingræður um mál sem ekki eru til umræðu heldur eingöngu til afgreiðslu.

Að öllu öðru leyti verður dagskrá dagsins óbreytt frá því að hún var kynnt sl. föstudag og boðuð þingflokksformönnum og boðuð á mánudag fyrir sléttri viku með þeirri einu breytingu þó, sem öllum hv. þingmönnum á að vera kunnugt um, að fremst á þá dagskrá færist ný kosning, þ.e. kosning ríkisendurskoðanda.

Varðandi skýrslubeiðnina barst mér bréf eftir hádegið frá utanríkisráðherra, undirritað af ráðuneytisstjóra fyrir hönd ráðherra, þar sem sett eru fram sjónarmið varðandi tiltekin atriði sem varða þessa skýrslubeiðni sem varð niðurstaða forseta, að höfðu samráði við sína ráðgjafa, að tóm yrði að gefast til að skoða. Ég greindi fyrsta flutningsmanni skýrslubeiðninnar strax frá því. Það stendur ekkert annað til en að þessi skýrslubeiðni komi að sjálfsögðu til atkvæða og að vilji þingsins ráði í þeim efnum. Utanríkisráðuneytið segir okkur ekki fyrir verkum í því svo að það sé haft á hreinu. Ég boðaði það að væntanlega getur þessi atkvæðagreiðsla farið fram á miðvikudaginn samhliða fleirum sem þá þurfa væntanlega að verða á sérstökum fundi sem verður boðaður um það mál. Þá get ég gert grein fyrir viðbrögðum mínum eða afstöðu til þeirra athugasemda sem utanríkisráðuneytið gerir og upplýst þingmenn um þær. Ég tel að það sé málefnalegra að þannig sé hægt að fara yfir þetta mál áður en til atkvæðagreiðslunnar kemur. Ég hefði ekki getað látið hana fara fram hér í dag án þess að upplýsa um þetta bréf. Það hljóta allir hv. þingmenn að sjá að hefði ekki verið málefnalegt.

Þar fyrir utan veit ég ekki hvort ég get dýpkað skýringar á því hvernig dagskrá dagsins í dag varð til. Minn skilningur á því máli var sá að við hefðum farið skýrt yfir það á mánudaginn var að aftur yrði einn þingfundadagur í þessari viku, þ.e. þessi dagur, og þá yrði hann með óhefðbundnu sniði, þ.e. ekki bara óundirbúnar fyrirspurnir, heldur yrðu þá stjórnarfrumvörp þau sem ekki hefðu komist að á þriðjudaginn eða gengið af þeirri dagskrá. Það lá alveg ljóst fyrir að að minnsta kosti tveir og reyndar þrír ráðherrar komu sínum málum ekki að á þriðjudaginn var þótt það væri afkastamikill dagur.

Það er tillagan og verður tillagan um dagskrá seinni fundarins og við munum þá byrja á því að greiða atkvæði um það hversu lengi sá fundur getur staðið.