148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

ummæli ráðherra um þingmann Pírata.

[15:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Eins og við vitum hafa Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að hæstv. dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, hafi brotið lög, þ.e. 10. gr. stjórnsýslulaga, þegar hún skipaði dómara við Landsrétt í fyrra. Ráðherra framkvæmdi ekki fullnægjandi rannsókn á umsækjendum um stöðu dómara og gaf ekki fullnægjandi rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun sinni að víkja frá mati dómnefndar um hæfni umsækjenda í dómaraembætti í samræmi við þær kröfur sem á henni hvíla samkvæmt stjórnsýslulögum. Sem stendur hafa tveimur umsækjendum sem gengið var fram hjá verið dæmdar miskabætur og stendur nú yfir deila fyrir dómstólum um hvort Arnfríður Einarsdóttir, ein þeirra fjögurra dómara sem skipaðir voru í trássi við hæfnismat dómnefndar, geti með réttu talist handhafi dómsvalds og bær til að dæma mál í Landsrétti.

Þessa fordæmalausu stöðu þekkjum við vonandi öll í þessum sal, hæstv. dómsmálaráðherra eflaust best sjálfur. Erfitt er að deila um að staða sem þessi grafi undan trausti okkar allra á dómskerfinu og sjálfstæði þess. Einnig gefur hún okkur mörgum tilefni til að vantreysta hæstv. dómsmálaráðherra í þessum efnum yfir höfuð.

Ég vildi rifja þessa sögu upp til að hafa samhengi í eiginlegri fyrirspurn minni til hæstv. dómsmálaráðherra. Sú fyrirspurn snýr einmitt að trausti gagnvart dómstólum og skoðunum hæstv. ráðherra á því. Í síðustu viku átti hæstv. ráðherra orðastað við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson um nýjan endurupptökudómstól sem ráðherra hyggst koma á fót og þar barst í tal traust hv. þingmanns til hæstv. ráðherra gagnvart skipan í enn eitt dómstigið og í ljósi þeirra aðstæðna sem ég hef lýst hér á undan. Í þeim umræðum viðhafði hæstv. ráðherra eftirfarandi orð um samflokksmann minn, hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson, með leyfi forseta:

„Í þessum ræðustól eins og alls staðar annars staðar fljúga menn eins og þeir eru fiðraðir. Þegar talið berst að undangreftri undan dómstólum landsins held ég að hv. þingmaður sé meðal þeirra sem mættu íhuga hvort ræðumennska hans um þetta mál geti átt hlut að máli.“

Í fyrri fyrirspurn minni hér vil ég spyrja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvað í ræðumennsku hv. þingmanns hún telji grafa undan dómstólum landsins svo hún svari skýrt um þessi orð sín.