148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

ummæli ráðherra um þingmann Pírata.

[15:36]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefði getað tekið þátt í umræðu um þetta ágæta mál sem ég mælti fyrir í síðustu viku og varðar endurupptökudómstólinn. Þar átti ég orðastað við ýmsa þingmenn, bæði í ræðum og andsvörum. Í þessum tilvitnuðu orðum hv. þingmanns er ég að vísa til ummæla sem hv. þingmenn hafa viðhaft hér um það, og fullyrðinga, um að grafið hafi verið undan dómstólunum með framkvæmd við skipan Landsréttar. Þar með vil ég beina því til þeirra sem þessi eða viðlíka orð hafa uppi og beina því aftur til þeirra, vísa slíkum ummælum til föðurhúsanna eins og kallað er, og benda á að veldur hver á heldur. Það eru ummæli eins og þessi, m.a. úr þessum virðulega ræðustól, sem einmitt eru til þess fallin miklu fremur en margt annað að grafa undan trausti og trúverðugleika stofnana ríkisvaldsins.