148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

línulagnir.

[15:52]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er með sama mál og ég held að ég sé með lausnina á þessu máli. Mig langar sem sagt til að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra út í málefni Landsnets og svonefnda Hamraneslínu, en eins og kunnugt er liggja háspennulínur gegnum Skarðshlíðarhverfi í Hafnarfirði þar sem lóðum hefur verið úthlutað í trausti þess að Landsnet standi við síendurtekin loforð og ítrekaða samninga um að þessar línur verði færðar.

Þau áform komust í uppnám í síðasta mánuði þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilti framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu, en sú lína var forsenda þess að hægt væri að taka niður Hamraneslínu. Landsnet hefur fengið frest til að bregðast við þessu, en Hafnarfjarðarbær hefur nú mátt sýna fyrirtækinu biðlund í upp undir áratug. Það stóð til, samkvæmt samningi sem gerður var 2009, að flutningi línanna yrði lokið árið 2017.

Landsnet hefur fram að þessu þverskallast við að skoða þá kosti að leggja þessa línu í jörð og er það ein helsta forsenda ógildingarinnar að slíkt mat hafi ekki farið almennilega fram. Landsnet ætlaði að leggja Lyklafellslínu um vatnsverndarsvæði og þess vegna var þetta náttúrlega kært. Samfylkingin i Hafnarfirði hefur sett fram hugmyndir um að nú þegar verði ráðist í framkvæmdir þar sem línurnar verði lagar í jörð gegnum Hafnarfjörð og komið til móts við þessar sjálfsögðu kröfur íbúa á Völlunum og í Skarðshlíð, að losna við slíkt mannvirki úr bakgarðinum hjá sér, enda hefur, eins og fyrr segir, uppbygging farið fram þarna í trausti þess að Landsnet standi við gerða samninga.

Ég vil því spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Hyggst hún beita sér fyrir því að þessi lausn verði skoðuð í alvöru í anda umhverfissjónarmiða 21. aldarinnar?