148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

vísbendingar um kólnun í ferðaþjónustu.

[16:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Að undanförnu hafa verið að berast ýmsar fréttir sem benda til þess að það kunni að vera að hægja á í hagkerfinu hjá okkur og ekki hvað síst í ferðaþjónustu, sem dregið hefur vagninn hjá okkur undanfarin ár. Ef horft er á undirliggjandi stærðir hagvaxtar á undanförnum árum hefur það fyrst og fremst verið ferðaþjónustan af útflutningsgreinunum sem hefur verið að vaxa, og raunar með töluverðum ruðningsáhrifum fyrir aðrar útflutningsgreinar vegna mikillar gengisstyrkingar.

Nú virðast hins vegar ýmis teikn á lofti um að ferðaþjónustan sjálf sé að verða, einhvers konar fórnarlamb eigin velgengni, getum við sagt, þ.e. að hin mikla gengisstyrking sé farin að hitta greinina sjálfa illa fyrir. Það má m.a. sjá á tölum varðandi greiðslukortaveltu erlendra ferðamanna sem verið hefur í samdrætti samfellt frá því í nóvember. Það er lítil fjölgun gistinátta á hótelum í það minnsta það sem af er þessu ári, mun minni vöxtur í fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll miðað við það sem Isavia hafði áður gert ráð fyrir. Nú síðast um helgina birtust fréttir þar sem unnin var greining upp úr leitarvélum sem gæti jafnvel gefið til kynna að samdráttur væri fram undan, sem hefur hingað til verið nær óhugsandi í þessari umræðu. En auðvitað er full ástæða til þess að stíga varlega til jarðar þegar Ísland er orðið jafn dýrt í alþjóðlegum samanburði og raun ber vitni.

Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvert er mat ráðherra á þessari stöðu og þessum teiknum sem eru á lofti? Hefur ráðuneytið látið framkvæma einhverjar úttektir á stöðu ferðaþjónustunnar, hvaða áhrif alvarlegt bakslag í greininni gæti haft á greinina sjálfa og lykilfyrirtæki innan hennar?