148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

vísbendingar um kólnun í ferðaþjónustu.

[16:06]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég að mörgu leyti tek undir orð hv. þingmanns og segi bara að ég hef sjálf verið töluvert upptekin af þeim þáttum sem hann fjallar hér um og hef reynt að finna þeim vangaveltum góðan farveg í mínum störfum. Ég lít meðal annars til þess sem hér gerðist fyrir um áratug. Við lærum af reynslunni þrátt fyrir að það sé ekki endilega á sama markaði eða í sömu atvinnugrein og áður.

Við þurfum að horfa á það, og það er það sem ég hef verið upptekin af, að við erum bara með algjörlega allt annað umhverfi en var hér áður. Skiptingin er allt önnur. Kakan lítur allt öðruvísi út og þá þurfum við að vera undir það búin hvað gerist. Og það er allt annað sem getur gerst í þessari köku en þeirri köku sem var hér fyrir tíu árum. Það er það sem skiptir máli að vera undirbúin fyrir. Ég lít meðal annars á Eflu-verkefnið sem þátt í því en við erum auðvitað að gera ýmislegt annað til að reyna að átta okkur á stöðunni og vera þá undir það búin hvað getur gerst og hvaða afleiðingar það hefur ef ákveðnir þættir gerast með því að teikna upp þessar sviðsmyndir.