148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

niðurskurður í fjármálaáætlun.

[16:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmálaráðherra kærlega fyrir að mæta hingað í þingið í dag. Í síðustu viku ræddum við þingmenn við ráðherra um fjármálaáætlun næstu fimm ára, sem er líkast til mikilvægasta plagg hverrar ríkisstjórnar. Þar er að finna upplýsingar um útgjöld og tekjur, en líka mjög mikilvægar upplýsingar um pólitíkina, stefnuna. Einmitt þess vegna er mikilvægt að ráðherrar mæti til að tala fyrir sinn málaflokk. Það sem hæstv. dómsmálaráðherra var vant við látin í síðustu viku er gott að fá að ræða málin hér í dag.

Málefni erlendra borgara eru mér hugleikin eftir störf mín á því sviði undanfarinn áratug eða svo. Því miður hef ég orðið vör við afar slakt þjónustustig hjá þeirri stofnun sem þjónusta á erlenda borgara. Um er að ræða þjónustustofnun sem frekar hefur verið rekin eins og lögregluríki. En í fjármálaáætlun má sjá umfjöllun um útlendingamál þar sem lítið fer fyrir mannúð, en mun meira er fjallað um skörugleika hæstv. dómsmálaráðherra er ráðist hefur í ýmiss konar breytingar á málaflokknum, á lögum og reglum um útlendinga og hreykir dómsmálaráðherra sér sérstaklega af því að hafa náð að hraða brottför þeirra sem sækja að hennar mati að tilefnislausu um alþjóðlega vernd. Svo hefur hún líka ráðist í að afnema sérstaka vernd fyrir börn með reglugerð í mars síðastliðnum.

En fyrst hæstv. dómsmálaráðherra er mætt hingað í þinghúsið verð ég að spyrja: Þar sem fjármálaáætlun er vægast sagt ógagnsæ og erfitt að greina hvernig fjármunum er ráðstafað, er sá 600 millj. kr. niðurskurður sem tengist málefnasviði 10, tengdur þeim málaflokki sem ég hef hér fjallað um, þ.e. málefni útlendinga? Eða er það þjóðkirkjan? Er það Persónuvernd eða hið nýendurreista dómsmálaráðuneyti sem mætir niðurskurðarhnífnum?