148. löggjafarþing — 50. fundur,  16. apr. 2018.

niðurskurður í fjármálaáætlun.

[16:09]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að leiðrétta það sem rangt var með farið hjá hv. þingmanni og lýtur að réttarvernd barna sem koma hingað til þess að leita hælis. Það er alveg af og frá að halda því fram að réttindi þessara barna hafi verið skert með einum eða neinum hætti, heldur hafa réttindi barna, bæði fylgdarlausra barna og barna sem koma hér í fylgd til fjölskyldu sinnar, eða þeirra sem segjast vera fjölskylda þeirra, og leita hælis, þvert á móti verið styrkt og öll þjónusta við börn líka. Þannig er það nú t.d. að hælisumsóknir frá fjölskyldu eru alltaf skoðaðar sérstaklega út frá hagsmunum barns. Málefni barna eru alltaf sérstaklega skoðuð þótt þau séu jafnvel ekki fylgdarlaus heldur komi í fylgd með foreldrum sínum eða í fjölskyldu.

Að öðru leyti má segja um fjármálaáætlunina að hún er auðvitað plagg sem ekki er ætlað að útlista með mjög nákvæmum hætti hvernig fjármunum er dreift á einstaka málaflokka innan tiltekinna málasviða, heldur er verið að setja ramma til næstu ára. Það er síðan undir hverjum ráðherra fyrir sig komið að útfæra það nánar.

Hv. þingmaður vísar til málefnasviðs nr. 10, sem eru réttindi einstaklinga. Það er rétt að gert er ráð fyrir nokkuð lægri fjárhæð. Það dreifist á ýmsa málaflokka innan þess sviðs vegna hagræðingar, m.a. vegna nýs dómsmálaráðuneytis, uppskiptingu innanríkisráðuneytisins. Það er rétt að vekja athygli á því að málefni þjóðkirkjunnar eru algjörlega utan við þetta, en það liggur fyrir að ljúka þarf samningum (Forseti hringir.) við þjóðkirkjuna.