148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stjórnarfrumvörp of seint fram komin -- beiðni um skýrslu.

[16:26]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég óska eftir að ræða fundarstjórn forseta, m.a. vegna þinghaldsins eins og það liggur fyrir og vegna þess að ég sé hér að á dagskrá hjá okkur í dag eru fjögur mál sem lögð voru fram eftir tilskilinn frest, þ.e. 1. apríl, og ber því að leita samþykkis þingsins um það hvort þau skuli taka fyrir eður ei. Um er að ræða 4., 7., 8., og 10. dagskrármálið á nýútgefinni dagskrá þessa þings, mál sem ekki voru gefin út fyrir tilskilinn frest.

Nú vil ég spyrja hæstv. forseta hvers vegna ég sjái ekki á minni dagskrá að greiða skuli atkvæði um hvort þessi mál skuli tekin til afgreiðslu á þessu þingi utan tilskilins frests. Hvernig er þá venjulega staðið að þessu? Það kemur mér satt best að segja á óvart, hæstv. forseti, að við stöndum hér og ræðum um lengri þingfund fyrir mál sem eru lögð of seint fram án þess að við séum einu sinni spurð um leyfi, hvort það megi fara með þessi mál fyrir þingið. Ég spyr hæstv. forseta: Hvernig stendur á þessu fyrirkomulagi?