148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018--2029.

479. mál
[17:37]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018–2029. Ísland er einstaklega ríkt af fallegri og sérstæðri náttúru og landslagi sem ferðamenn sækjast eftir að skoða og upplifa. Ferðaþjónusta hefur vaxið mjög á fáum árum og er nú einn mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar. Helsti grundvöllur hennar er nýting fjölbreyttra gæða náttúru og menningararfs, en það eru einkum þau gæði sem laða gesti til landsins. Þetta kallar á ný stjórntæki og skilvirk viðbrögð.

Þann 5. apríl 2016 tóku gildi lög nr. 20/2016, um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Markmið laganna er að móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar.

Samkvæmt 10. gr. laganna skal leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumarkandi landsáætlun, en áætlunina skal í samræmi við markmið fyrrnefndra laga móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum. Það skal gert með stefnumarkandi landsáætlun til 12 ára samkvæmt 3. gr. sem hér er lögð fram. Jafnframt skal samkvæmt lögum þessum vinna þriggja ára verkefnaáætlun samkvæmt 4. gr. sem er hluti af og innan ramma 12 ára áætlunarinnar.

Landsáætlun um innviði tekur til ferðamannastaða, ferðamannasvæða og ferðamannaleiða og tekur til lands í eigu ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Innviðum, í skilningi laga um landsáætlun, er ætlað að draga úr álagi, varna skemmdum á náttúru og minjum og auka öryggi ferðamanna. Annars vegar er um að ræða efnislega innviði sem aukið geta álagsþol og bætt öryggi viðkomandi staðar af völdum aukinnar ferðamennsku, svo sem bílastæði, útsýnispallar, salerni, göngustígar og skilti. Hins vegar er um að ræða óefnislega innviði, þar með talið umgengnisreglur, stýringu og landvörslu.

Mun ég nú rekja nokkrar dagsetningar varðandi vinnuferlið.

Þann 18. mars 2016 voru lög nr. 20/2016 samþykkt á Alþingi og tóku þau gildi þann 5. apríl sama ár. Þann 20. júní 2016 skipaði þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra verkefnisstjórn landsáætlunar í samræmi við 5. gr. laga nr. 20/2016 og hófst þá m.a. vinna stefnumarkandi landsáætlunar sem hér er mælt fyrir. Í verkefnisstjórn eru, auk fulltrúa umhverfis- og auðlindaráðherra, fulltrúar mennta- og menningarmálaráðherra, ferðamálaráðherra, forsætisráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Ráðgjafarnefnd var skipuð 9. febrúar 2017 í samræmi við 6. gr. innviðalaganna en verkefni hennar var að vera verkefnisstjórn til ráðgjafar og samráðs við undirbúning stefnumarkandi landsáætlunar til 12 ára. Frá 5. febrúar til 19. mars 2018 fór fram samráðsferli um drög að tillögum verkefnisstjórnar og gafst stofnunum, almenningi og hagsmunaaðilum færi á að veita umsagnir um drögin og umhverfisskýrslu stefnumarkandi landsáætlunar. Mun ég fara nánar út í samráðsferlið síðar.

Í mars 2018 skilaði verkefnisstjórn skýrslu til ráðherra um tillögur að stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Skýrslu verkefnisstjórnar ásamt umhverfisskýrslu og yfirlit yfir umsagnir sem bárust í umsagnarferli er að finna í fylgiskjölum við þingsályktunartillöguna sem ég mæli hér fyrir.

Hugmyndafræði og framtíðarsýn stefnumarkandi landsáætlunar byggir á nokkrum meginsjónarmiðum:

Í fyrsta lagi byggir sú stefnumótun sem hér birtist á því meginsjónarmiði að náttúru- og menningarminjar landsins skuli vernda og þegar komi að nýtingu þeirra gæða sem í þeim felist skuli ávallt horft til viðmiða um sjálfbærni. Töluverður hluti mikilvægustu náttúru- og menningarminja í landinu sem ferðamenn sækja er jafnframt þegar friðlýstur eða nýtur annarrar verndar samkvæmt lögum.

Í öðru lagi byggir stefnumótun þessi jafnframt á því meginsjónarmiði að ferðaþjónusta sé mikilvægur atvinnuvegur sem skapi mörg tækifæri og skipti miklu máli fyrir efnahag og velferð í íslensku samfélagi auk styrkingar byggðar.

Í þriðja lagi er leiðandi við stefnumótunina að leita verði ákveðins jafnvægis milli verndunar náttúru og menningarminja og svo nýtingar þeirra í þágu ferðaþjónustu þar sem það á við. Þetta eiga ekki að þurfa að vera ósamrýmanleg markmið en staðreyndin er sú að ferðaþjónusta á Íslandi byggir á þeirri ímynd að hér sé aðgengileg en jafnframt lítt snortin náttúra sem njóti fullnægjandi verndar. Því þarf að leita allra leiða til að náttúra og menningarminjar spillist ekki við nýtingu ferðaþjónustu. Á þann hátt er hægt að stuðla að því að upplifun ferðamanna samræmist væntingum og að ferðaþjónustan geti þróast með sjálfbærum hætti.

Í fjórða lagi skiptir það sjónarmið miklu máli að ekki séu allir fallegir og sérstæðir staðir í náttúrunni byggðir upp heldur séu þau gæði sem felast í ósnortinni náttúru einnig varðveitt. Val á aðgerðum við innviði á hverjum stað þarf því að grundvallast á skilningi á eðli staðarins, eðli ferðamennsku á staðnum, verndargildi, skipulagi og nánari stefnumótun. Vel útfærðir innviðir á völdum stöðum, svæðum og leiðum sem ferðamenn sækja í náttúrunni er ein forsenda fyrir sjálfbærri ferðaþjónustu á Íslandi.

Í fimmta lagi þarf að gæta að samspili almannaréttar, eignarréttar, fjölgunar ferðamanna og aukinna umsvifa í ferðaþjónustu og leita leiða til að stýra betur aðgangi ferðamanna. Ákveðnar umgengnisreglur og stýring eru því nauðsynlegur hluti þeirra innviða sem þarf að byggja upp til verndar náttúru- og menningarminjum en á ýmsum mikilvægum stöðum og leiðum er fjöldi orðinn slíkur að álag er verulegt.

Í sjötta lagi miðast stefnumótunin að því að vinna að aukinni samræmingu og yfirsýn þeirra mörgu stofnana og aðila sem að þessum verkefnum koma, þar með talið ríkis og sveitarfélaga, að horfa til marga ára í senn, og að ná fram heildstæðri og samræmdri sýn varðandi fyrirkomulag og uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum.

Í 3. gr. laga nr. 20/2016, um landsáætlun, segir að í stefnumótandi landsáætlun til 12 ára skuli móta stefnu og markmið fyrir uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir eru sett fram stefnumótandi markmið og áherslur til að vinna að framgangi þeirrar stefnu sem fram kemur í áætluninni. Þau fimm viðfangsefni sem lögð er áhersla á eru stýring og sjálfbær þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, öryggismál, skipulag og hönnun og ferðamannaleiðir. Þá var sjálfbær þróun og góð nýting fjármuna höfð að leiðarljósi.

Ég mun fara nánar í viðfangsefnin fimm hér á eftir.

Að auki lagði ég fram áherslur mínar í samræmi við 4. mgr. 3. gr. laganna og voru þær eftirfarandi: Á að sinna stöðum og svæðum sem eru friðlýst og vernd þeirra minja sem þar eru; á þá staði og svæði sem eru undir miklu álagi vegna ferðamanna og náttúra og minjar farnar að láta á sjá; á að efla landvörslu í þeim tilgangi að vernda náttúru og minjar auk eftirlits og þjónustu og kem ég betur að þeim þætti síðar; á að útfæra leiðir til að stýra umferð ferðamanna í þágu verndar náttúru og minja og verði það gert með tilliti til almannaréttar; á að áætlunin stuðli að aukinni fagmennsku, vandaðri hönnun sem fellur vel að landslagi, bættu skipulagi og góðum vinnubrögðum við uppbyggingu innviða; á að unnið sé að langtímasýn, samræmingu vinnu og samhæfingu þeirra aðila sem að vernd náttúru og minja koma.

Hvað varðar ítarlega yfirferð yfir vinnu verkefnisstjórnar vil ég vísa á skýrslu hennar sem er fylgiskjal með tillögu þessari. Ég vil hins vegar sérstaklega fara yfir það lögbundna samráðs- og kynningarferli sem átti sér stað áður en tillögunum var skilað til mín.

Eins og kveðið er á um í lögum nr. 20/2016 kynnti verkefnisstjórn drög að skýrslu sinni um stefnumarkandi landsáætlun í febrúar 2018, auk umhverfismats áætlunarinnar í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana, og gafst stofnunum, almenningi og hagsmunaaðilum færi á að veita umsagnir um fram komin drög. Það samráðsferli stóð í sex vikur, frá 5. febrúar til 19. mars 2018. Í því umsagnarferli bárust verkefnisstjórn 16 umsagnir um stefnumarkandi landsáætlun og sjö umsagnir bárust um umhverfismat áætlunarinnar. Er efni þeirra reifað í viðauka með skýrslu verkefnisstjórnar.

Ég mun nú reifa stuttlega þau fimm meginviðfangsefni sem þingsályktunartillaga þessi tekur til og taka valin dæmi af áhersluatriðum sem skilgreind hafa verið innan hvers viðfangsefnis. Ítarlega er farið yfir þetta í greinargerð með tillögunni ásamt skýrslu verkefnisstjórnar.

Undir markmiði um stýringu og sjálfbæra þróun eru fjögur áhersluatriði sett fram, en það eru lög og reglur um stýringu; flokkun lands og staða; þolmörk ferðamennsku og merkingar og miðlun.

Meðal áherslna er að vinna að endurskoðun á lögum og reglum til að mögulegt verði að stýra betur aðgengi ferðamanna í náttúru landsins, þar með talið landtöku skemmtiferðaskipa utan hafna og skoðun villidýralífs. Einnig má nefna frekari samræmingu í merkingum, svo sem skiltum, og miðlun upplýsinga um viðkvæma náttúru landsins, ekki síst með stafrænum hætti.

Undir markmiði um vernd náttúru og menningarsögulegra minja eru þrjú áhersluatriði sett fram, en þau eru stjórnun og vernd náttúru og menningarsögulegra minja; umsjón, ábyrgð og eignarhald og mat á álagi, ástandi og innviðaþörf.

Meðal áherslna er að stuðla enn frekar að gerð áætlana sem draga fram verndarsjónarmið ferðamannastaða, skilgreina umsjónaraðila með ferðamannastöðum og útfæra í hverju slík umsjónarleg ábyrgð felist og meta ástand ferðamannastaða með reglubundnu millibili.

Undir markmiði um öryggismál eru fimm áhersluatriði sett fram, og eru þau reglur um öryggismál; umsjón og ábyrgð; mat á öryggi ferðamanna; öryggi innviða og samhæfing.

Meðal áherslna er að tryggja að til séu haldgóðar reglur og áætlanir um öryggismál á ferðamannastöðum sem tengjast landsáætlun og að stuðla að skýrari ábyrgð umsjónaraðila á ýmsum þáttum öryggismála.

Undir markmiði um skipulag og hönnun eru skilgreind fimm áhersluatriði sem eru skipulagsgerð sveitarfélaga; hönnun, yfirbragð og staðsetning efnislegra innviða; val á efni; fagþekking og samhæfing.

Meðal áherslna eru mál sem lúta að skipulagsmálum þar sem sveitarfélög eru ábyrgðaraðili. Einnig er lögð rík áhersla á að stuðla að eflingu fagþekkingar á öllum þáttum innviðauppbyggingar á ferðamannastöðum, svo sem góðri hönnun sem fellur vel að landslagi, efnisvali í sátt við nærumhverfi, þannig að stutt sé við gildi staðar, staðaranda og upplifun gesta.

Undir markmiði um ferðamannaleiðir eru tvö áhersluatriði sett fram, en það eru stefnumótun um gönguleiðir og umgjörð þeirra og umsjón ferðamannaleiða.

Meðal áherslna er mótun umgjarðar fyrir gönguleiðir með það að markmiði að til verði net ákveðinna ferðamannaleiða með skilgreindri umsjónarlegri ábyrgð og fullnægjandi innviðum.

Eins og ég nefndi áðan vil ég víkja sérstaklega að landvörslu. Ég tel æskilegt að við flýtum okkur hægt þegar um er að ræða uppbyggingu sem getur breytt yfirbragði staða til langframa. Landvarsla er því mikilvægt stjórntæki sem er skjótvirkt viðbragð við álagi og skilur ekki eftir sig ummerki til langframa. Því er mikilvægt að halda áfram að efla og skipuleggja landvörslu til að ná fram markmiðum þessara laga. Á sama tíma er að sjálfsögðu mikilvægt að byggja upp staði víðs vegar um land á ferðamannastöðum með tilliti til innviða.

Í lokin vil ég ítreka hversu mikilvægt er að eiga heildstæða stefnu til langs tíma um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum á þeim stöðum sem ferðamenn heimsækja. Með þessari vinnu tel ég að við séum að stíga stórt skref áfram til að takast skipulega á við þetta stóra viðfangsefni og vil þakka sérstaklega öllum þeim fjölmörgu sem að þessari vinnu hafa komið frá opinberum aðilum, fyrirtækjum og félagasamtökum.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessarar tillögu og legg til að henni verði að lokinni fyrri umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.