148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

Póst- og fjarskiptastofnun o.fl.

454. mál
[18:52]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjarskipti. Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar vegna gjaldtöku fyrir tíðnir, bæði á ákvæðum laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, og einnig laga um fjarskipti, nr. 81/2003, annars vegar um að lækka tiltekin tíðnigjöld og breyta skilgreiningu á gjaldsvæðum og hins vegar um gjaldtöku vegna framlengingar tíðniheimilda. Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á VI. kafla laga um fjarskipti en kaflinn fjallar um alþjónustu og sértæka fjarskiptaþjónustu.

Frumvarpið var samið í tveimur hlutum en var sameinað í eitt frumvarp til hagræðingar. Fyrst verður gerð grein fyrir breytingum á VI. kafla laga um fjarskipti varðandi alþjónustu og því næst breytingum vegna gjaldtöku fyrir tíðnir.

Brýnt er að uppfæra ákvæði laga um fjarskipti er lúta að alþjónustu. Þess skal getið að meðal þess sem telst til alþjónustu er almenn talsímaþjónusta, gagnaflutningsþjónusta að ákveðnu marki, upplýsingaþjónusta um símanúmer og fjarskiptaþjónusta fyrir notendur með sérstakar samfélagslegar þarfir, auk neyðarsímsvörunar í númerið 112.

Inntak alþjónustu eins og það hugtak er skilgreint í lögum um fjarskipti hefur ekki tekið breytingum frá því að það var skilgreint í aðdraganda evrópskrar reglusetningar frá árinu 2002. Miklar tækniframfarir hafa orðið síðan þá, t.d. tilkoma háhraðafarnetsþjónustu og ljósleiðaravæðing heimtauganeta. Núgildandi lög um fjarskipti kveða á um að í alþjónustu felist réttur til nettengingar að lágmarki 128 kílóbætum á sekúndu og það getur vart talist viðunandi nettenging í dag.

Eins og fyrr segir fleygir tækninni fram og því er mikilvægt að halda í við hraðar tækniframfarir og uppfæra ákvæði laga um fjarskipti um alþjónustu. Í 2.–6. gr. frumvarpsins eru ákvæði sem ætlað er að breyta lögunum hvað varðar alþjónustu. Í fyrsta lagi er ljóst að inntak alþjónustu endurspeglar ekki þá lágmarksfjarskiptaþjónustu sem eðlilegt er að notendum standi til boða miðað við núverandi tæknistig. Þó að ekki séu forsendur til að fella nýja tækni og/eða þjónustuframboð sem henni fylgir undir alþjónustu er ljóst að bæta þarf löggjöfina. Á þetta fyrst og fremst við um gagnaflutningsþjónustu innan alþjónustu, en sá gagnaflutningshraði sem skilgreindur er í lögum gefur ekki kost á nothæfri internetþjónustu ef tekið er mið af þörfum notenda í dag og í fyrirsjáanlegri framtíð. Því er þörf á að uppfæra þjónustustig gagnaflutnings innan alþjónustu og gera þá meginbreytingu að horft sé til einstakra þjónustuþátta sem internetþjónustu skal vera tæknilega kleift að sinna frekar en að skilgreina tiltekinn lágmarksgagnaflutningshraða sem reynslan sýnir að getur úrelst hratt.

Í öðru lagi verður að horfa til þess að með tækniframförum síðustu ára í fjarskiptum hafa opnast möguleikar á því að veita alþjónustu eftir fleiri tæknilegum leiðum en með tengingu við grunnnet fjarskipta. Í sumum tilfellum gætu slíkar tæknilausnir, t.d. farnetsþjónusta, verið hagkvæmari kostur en fastanetstengingar og skilað jafn góðri ef ekki betri þjónustu. Á það sérstaklega við ef um er að ræða lögheimili og/eða vinnustaði sem eru tengd koparheimtaug og nokkuð fjarri símstöð eða götuskáp. Því þykir rétt, með tilliti til hagkvæmni og skilvirkni, að fella niður það skilyrði laga um fjarskipti sem bindur alþjónustu við fastanetstækni. Með breytingunni verður alþjónusta ekki bundin við tiltekna tækni og því hægt að meta það svæðisbundið í hverju tilviki hvernig hagkvæmast er að veita alþjónustu. Slík breyting er einnig til þess fallin að draga úr þeim kvöðum sem í dag hvíla á útnefndum alþjónustuveitanda, þ.e. Mílu ehf., um að þurfa ávallt að útvega lögheimilum og vinnustöðum fastanetstengingu, þrátt fyrir að aðrir jafn góðir eða betri tæknilegir valkostir standi til boða.

Virðulegi forseti. Ég ætla næst að gera grein fyrir breytingum á gjaldtöku vegna tíðna. Breytingar á gjaldtöku vegna tíðna eru ekki síður mikilvægar en þær breytingar sem lagðar eru til vegna alþjónustu. Breytingar vegna tíðna eru þríþættar og eru tvær þær fyrstu í 1. gr. frumvarpsins og sú þriðja í 7. gr. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu á árgjöldum fyrir tíðniafnot sem greiðist til Póst- og fjarskiptastofnunar. Þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, um árleg gjöld fyrir tíðnir, snúa annars vegar að fastasamböndum og hins vegar að almennum farsímanetum. Gjöldum sem þessum er ætlað að renna til stofnunarinnar til að standa undir hluta af kostnaði við eftirlit á fjarskiptamarkaði. Ástæða er til að gera breytingar til lækkunar á árgjöldum tiltekinna tíðna með það að meginmarkmiði að bæta fjarskipti og auðvelda útbreiðslu fjarskipta. Lagt er til að felld verði niður gjaldtaka á fastasamböndum um örbylgju þegar þau eru nýtt til tengingar stakra bygginga í dreifbýli þar sem ekki er ákjósanlegt sökum kostnaðar að tengja staði með ljósleiðara eða fyrir liggur að lagning ljósleiðara muni dragast. Þannig verður hægt að auðvelda ábúendum að tengjast með öðrum hætti. Einstakir staðir þurfa því ekki að verða sjálfkrafa út undan í skipulagðri uppfærslu fjarskipta á heilum landsvæðum.

Þá er lagt til að ákvæði um gjaldtöku vegna tíðna fyrir almenn farsímanet verði skipt upp á þá leið að ákvæðið endurspegli verðmæti tíðnanna með nákvæmari hætti en í gildandi lögum. Ýmsir þættir geta haft áhrif á verðmæti mismunandi tíðnisviða. Sem dæmi má nefna að hærri og skammdrægari tíðnisvið fela að jafnaði í sér meiri uppbyggingarkostnað. Þá þarf mun stærri hluta tíðnisviðsins vegna hverrar tíðniheimildar á hærri tíðnisviðum og þar sem árgjald grundvallast á því hversu mörgum megahertzum er úthlutað vegna tiltekinnar tíðniheimildar liggur fyrir að tíðnigjöldin á hærri tíðnisviðum yrðu íþyngjandi, jafnvel til þess fallin að draga úr uppbyggingu fjarskipta. Með því að sundurliða með nákvæmari hætti tíðnir fyrir almenn fjarskiptanet með hliðsjón af slíkum sjónarmiðum má búa til nauðsynlegan hvata fyrir markaðsaðila til uppbyggingar.

Í öðru lagi er ætlunin að gera breytingu á skiptingu gjaldsvæða fyrir tíðniafnot. Reynslan af úthlutun tíðna fyrir almenn fjarskiptanet, einkum þráðlaus aðgangsnet um fastan tengipunkt, hefur leitt í ljós að afmörkun gjaldsvæða í gildandi lögum er ekki að öllu leyti heppileg. Hugsunin er sú að gjöld fyrir tíðniafnot séu hærri á þéttbýlasta svæði landsins, þ.e. höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er það svæði afmarkað sem Suðvesturland frá Suðurnesjum til Akraness. Þetta gerir það að verkum að minni þéttbýliskjarnar á þessu svæði lenda í hærri gjaldflokki en efni standa til. Af þessum sökum þykir rétt að afmarka höfuðborgarsvæðið með nákvæmari hætti í lögum og tilgreina þau sveitarfélög sérstaklega sem falla eiga í umræddan hærri gjaldflokk.

Í þriðja lagi hvað varðar tíðnir er í 7. gr. frumvarpsins fjallað um gjaldtöku í formi auðlindagjalda vegna endurúthlutunar tiltekinna tíðna. Um er að ræða nýtt bráðabirgðaákvæði við lög um fjarskipti. Eðlilegt er að endurgjald komi fyrir afnot af þessum hlutum tíðnirófsins. Við gjaldtöku fyrir tíðniréttindi hefur fram að þessu að jafnaði verið kveðið á um gjaldtöku í bráðabirgðaákvæði enda geta forsendur úthlutunar mismunandi tíðnisviða verið ólíkar. Fjarskiptatíðnir eru takmörkuð auðlind og geta töluverð fjárhagsleg verðmæti verið fólgin í notkun slíkra tíðna. Víða erlendis er um gífurlegar fjárhæðir að ræða sem ráðast m.a. af stærð markaða en einnig þurfa ríki víða að samnýta tíðnir með öðrum ríkjum sem deila með þeim landamærum. Mismunandi hlutar tíðnirófsins hafa mismunandi eiginleika og eru því misverðmætir. Ljóst er út frá fyrri framkvæmd og erlendum samanburði að verðlagning á tíðnisviðinu sem lögð er til í frumvarpinu er hófleg, jafnvel þótt tekið sé mið af veltu fjarskiptafyrirtækja út frá höfðatölu. Gjaldtaka sem lögð er til í frumvarpinu er sambærileg við það sem áður hefur tíðkast. Ekki verður séð að gjöldin hafi verið íþyngjandi fyrir markaðsaðila enda er verð fyrir farsímaþjónustu á Íslandi með því hagkvæmasta í Evrópu.

Virðulegi forseti. Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eiga það sammerkt að þeim er m.a. ætlað að stuðla að markmiðum fjarskiptaáætlunar og landsátaks um ljósleiðarauppbyggingu í dreifbýli, átaksins Ísland ljóstengt. Breytingunum er ætlað að stuðla að sanngjarnari gjaldtöku og hvetja til uppbyggingar fjarskipta.

Ég hef hér með gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.