148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[19:27]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns um hvort Vestmannaeyjar eigi að vera sérhluti og ekki hluti af landshlutanum Suðurlandi þá geta auðvitað verið innan landshlutanna mjög ólík svæði, þannig að það hefur ekki verið til sérstakrar skoðunar. Auðvitað eru Vestmannaeyjar sérstakar á margan hátt. Það sama gildir um Öræfin. Það sama gildir um mörg svæði á Vestfjörðum. En þau eru engu að síður undir sama landshlutanum.

Varðandi vangaveltur þingmannsins og spurningar um þrífösun rafmagns og mikilvægi þess, þá er það algjörlega rétt og það er fjallað um það í þessari byggðaáætlun að flýta þurfi því verkefni því ellegar, ef ég man rétt, er ekki fyrirhugað að því ljúki fyrr en 2035. Reyndar eru það nú verulegar framfarir, af því að þegar ég kom hér inn fyrir nokkrum árum þá átti það að taka 60 eða 70 ár, þannig að það er þó styttra. En það er hins vegar óásættanlega langt fram í tímann fyrir þau svæði sem bíða í raun og veru eftir því núna.

Annars vegar er nefnd að störfum undir forystu hv. þm. Haraldar Benediktssonar sem er að vinna að þessum málum. Hins vegar er í byggðaáætluninni fjallað um það að þegar verkefninu Ísland ljóstengt lýkur þá munum við hafa meiri fjármuni úr að spila til þess að geta farið í þetta líka með það að meginmarkmiði að flýta fyrir þrífösun rafmagns á öllu landinu, sem er mjög mikilvægt til þess að skapa fjölbreyttari atvinnu og ýta undir fjölbreyttara atvinnulíf og öflugri starfsemi.