148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:20]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar spurningar. Það sem ég var að fjalla um í máli mínu áðan var að það er Alþingi sem ákveður stefnu og framkvæmdarvaldið fylgir henni ekki eftir. Við settum þetta í lög um aðskilnað sýslumanns- og löggæsluembættanna, að vinna ætti að fara af stað um að flytja þessi verkefni. Svo tekur framkvæmdarvaldið sér það vald að fara ekki eftir því. Það var það sem ég var að segja. Þar sem ég gat haft áhrif, í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, komum við þessu inn í lögin og greiddum atkvæði hér í þingsal. Það sem ég er að tala um hér er að þegar Alþingi Íslendinga ákveður stefnu skal framkvæmdarvaldið fylgja henni eftir, sem gerðist ekki þarna. Ef eitt ráðuneyti eða ráðherra ákveður forgangsröðun verður að tryggja að undirstofnanir þess ráðuneytis fylgi þeirri stefnu og eftir atvikum önnur ráðuneyti, eins og ég kom inn á með verkefnið Brothættar byggðir. Þar setur Byggðastofnun, undirstofnun samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, verkefnið af stað en þá fylgir það ekki með í gegnum allt kerfið.

Ég er að tala um hvernig hægt sé að sjá til þess og tryggja að svona góðri stefnu sé framfylgt.