148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[20:26]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér lykilmál, mikilvæga þingsályktunartillögu um byggðamál. Margt er augljóslega til bóta í þessu plaggi og það er frábrugðið fyrri áætlunum. Þá kannski einkum það að þessi byggðaáætlun er að stórum hluta fjármögnuð, ekki til sex ára, eins og hún gildir, heldur til fimm ára samkvæmt ríkisfjármálaáætlun. Það mun vera í fyrsta sinn sem svo mikilvæg byggðaáætlun er fjármögnuð að jafnstórum hluta. Þetta er auðvitað gleðilegt uppátæki og sýnir að ríkisstjórnin er þó með fingur á púlsi samfélagsins að þessu leyti.

Styrkur þessarar byggðaáætlunar er augljóslega sá að hún var vandlega unnin í samráði. Til fyrirmyndar að því leyti líkt og innviðaáætlun sem rædd var hér fyrr í dag. Þetta kemur fram í því að þarna var haft samráð við sveitarstjórnir, við hópa í sveitarfélögunum sjálfum, jafnvel 30 til 100 manna hópa, og svo auðvitað ráðuneytin sem þarna hafa aðgang. Síðan var þetta aðgengi á samráðsgátt ráðuneytisins opið, þar komu fram ábendingar.

Þær 54 aðskildu aðgerðir sem þarna eru innanborðs eru settar fram með verðmiða. Það er líka að nokkru leyti óvenjulegt. Þetta er bæði fé úr byggðaáætluninni sjálfri og eins frá einstökum ráðuneytum eftir því sem við á.

Þarna er margt áhugavert og ágætt. Ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins upp úr þessu ágæta plaggi. Við erum hér með samantekt sem nefnir þessar 54 aðgerðir. Til að nefna aðeins hversu vítt svið þetta spannar þá nefni ég jöfnun orkukostnaðar og að hraða eigi þrífösun rafmagns. Flutningskerfi raforku og bætt orkuöryggi er hér á dagskrá, nýsköpun í matvælaiðnaði; varmadæluvæðing á köldum svæðum, sem er mjög mikilvægt mál; störf án staðsetningar sem mun skipta fólk sem vill flytjast út á land miklu; bújarðir í eigu ríkisins sem þá væntanlega verða virkjaðar til góðs; efling rannsókna og vísindastarfsemi; stuðningur við einstaklinga, m.a. í gegnum námslán; efling fjölmiðlunar í héraði; list fyrir alla. Svo er ljóstengingin, eða ljósleiðaravæðingin, nefnd sérstaklega með allhárri upphæð; almenningssamgöngur um allt land og flug sem almenningssamgöngur. Svo ætla ég að leyfa mér að nefna hér eitt atriði sem vantar, það eru efldir sjúkraflutningar úti á landi.

Ég sný blaðinu við og nefni sérstakar sóknaráætlanir og brothætt byggðarlög sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason minntist hér á áðan; það mun skipta sköpum fyrir mörg lítil sveitarfélög. Ég nefni fagmennsku á sviði innviða á náttúruverndarsvæðum, sem menn hafa lýst eftir. Það kemur fram að þegar verið er að byggja upp innviði á mörgum þessara svæða hefur mjög svo skort á fagmennsku þannig að innviðirnir eldast illa, skemmast fljótt og skipta ferðaþjónustu á þessum svæðum miklu máli. Ég nefni héraðslækningar, til að jafna aðgengi að þjónustu, og nærþjónustu við innflytjendur, sem mér finnst mjög falleg yfirlýsing hér. Síðan til þess að ljúka þessu nefni ég húsnæðisáætlanir sveitarfélaga og fleiri konur í sveitarstjórnir.

Svo er það stýrihópur ráðuneytisins um byggðamál sem á núna að endurskipuleggja, sem fylgir þessum málum eftir. Þetta er svo endurskoðað á þriggja ára fresti eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra og auk þess verður samráð innan ríkisstjórna. Vel er að verki staðið að mínu mati í þessu öllu.

Ég ætla að leyfa mér að vera hér með áminningu til hæstv. ráðherra — hann situr hér í salnum — um að taka mið af loftslagsmálum og jafnréttismálum í öllum þessum aðgerðum þar sem við á — það er aðeins misjafnt, vissulega, og sums staðar á þetta svo sem ekki alveg við. Og ekki eingöngu í loftslagsmálum og jafnréttismálum heldur líka í því sem við getum kallað jafnan rétt til þjónustu og að tryggja áframhaldandi framþróun í byggðamálum á þessum sviðum.

Þessi þingsályktunartillaga hverfur nú til umhverfis- og samgöngunefndar og þar bíður okkar verk, að bæta við það sem á vantar, t.d. verkefni sem heyra undir dómsmálaráðuneytið. Ég gæti þá nefnt lögreglumál, eða löggæsluna öllu heldur. Eins mál eða aðgerðir sem myndu henta utanríkisráðuneytinu. Þar er ég meðal annars með starfsstöðvar í huga.

Til þess að ljúka máli mínu ætla ég að spyrja ákveðinnar vonarspurningar: Ég þykist skynja að breytt viðhorf ungs fólks í borgarsamfélaginu séu vaxandi. Það er fólk sem vill leita annað en inn í borgarsamfélagið og finna sér auðveldara nærsamfélag til þess að ala börn upp í og vinna í. Þetta er þróun sem ég hef skynjað sjálfur. Ég vona að aðrir þingmenn geri það líka, vegna þess að þar í liggur líka ákveðin von, ekki bara í byggðaáætluninni sjálfri, um að það takist að stöðva fólksflótta af landsbyggðinni og snúa þróuninni við þannig að þar fjölgi fólki hægt og rólega á ný, sem ég held að sé lykilatriði fyrir framtíð landsins.