148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[21:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir það að við séum komin með byggðaáætlun í hendur og að hún sé komin til umræðu í þinginu. Þegar ég var með þessa áætlun í höndum í janúar 2017 var hún tilbúin. Það voru tvö ráðuneyti sem áttu eftir að fara í gegnum hana á þeim tíma; það hefur tekið góðan tíma fyrir þau að gera það. Ég sé hins vegar að eitthvað annað hefur gerst í leiðinni því að ákveðnir hlutir eru farnir út úr því plaggi sem var þá á borðinu, eins og ég kannast við það.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera viðstaddur umræðuna. En mig langar að spyrja hvort það sé ekki alveg öruggt að áætlunin sé fullfjármögnuð öll árin út tímann. Það er mjög mikilvægt að við vitum það.

Mig langar líka, fyrst ég er byrjaður, að spyrja um atriði á bls. 11 í þessari ályktun: Þar er rætt um flutningskerfi raforku og aukið orkuöryggi, það er kafli sem heitir B.2. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Áfram verði unnið að því að liðka fyrir nauðsynlegri uppbyggingu og viðhaldi á flutnings- og dreifikerfi raforku …“

Hvað er átt við þarna? Hvað þýðir það í byggðaáætlun að liðka fyrir? Ef þú horfir á bíómynd þá vitum við hvað liðka fyrir þýðir, alla vega í ítölskum bíómyndum, það er varla það sem er þarna í gangi. Ég velti fyrir mér: Hvernig á að liðka fyrir því að línur séu lagðar? Ég spyr fyrir forvitni sakir fyrst og fremst. Það eru 60 milljónir sem eiga að fara í þessar „liðkanir“ eða hvað við köllum þetta. Þannig að ég spyr hvað þetta þýði.

Ég fagna því ef hægt er að tryggja betri orkuflutning og afhendingaröryggi um allt land með því að liðka fyrir einhvers staðar eða hvað sem þetta þýðir.

Ég fagna því mjög að afskriftir á námslánum séu enn inni í byggðaáætlun. Það er eitt af þeim málum sem ég lagði áherslu á að yrði sett í byggðaáætlun þegar hún var á borðinu hjá mér í ráðuneytinu og einnig varðandi niðurgreiðslu ferðakostnaðar. Þetta eru hlutir sem voru ekki í áætlun þegar ég tók við henni á sínum tíma. Ég fagna því mjög að þetta sé komið inn.

Annað sem ég fagna líka er það að sérstök lánakjör séu þarna inni fyrir landbúnaðinn. Mig langar hins vegar að spyrja hvort það hafi ekki komið upp í umræðunni — það var eitt af því sem var byrjað að ræða, ég verð að viðurkenna að ég man ekki hvort það var komið á endastöð, en þá vorum við að velta því fyrir okkur — hvort Byggðastofnun gæti ekki verið með lánaflokk og hjálpað þeim sveitarfélögum sem vilja ganga inn í forkaupsrétt á aflaheimildum þegar skip og aflaheimildir væru til sölu í byggðarlaginu. Sveitarfélögin eru mörg hver þannig stödd að þau geta einfaldlega ekki fjárfest eða komið inn í þá miklu fjárfestingu sem þarna er. Því væri eðlilegt að Byggðastofnun skoðaði hvort hægt væri að vera með einhverja fyrirgreiðslu. Mér leikur forvitni á að vita hvort það hafi verið rætt ofan í kjölinn og skoðað.

Ég sakna þess aðeins að sjá ekki eitthvað um löggæslu. Það kann að vera að það hafi farið fram hjá mér, en ég sakna þess að sjá ekkert um löggæslu þarna inni. Það er mikilvægt, það tengist þessum málaflokki mjög. Löggæslan er líka byggðamál.

Síðan ætla ég að leyfa mér að koma örlítið inn á flugvallaumræðuna. Minnst er á flugvelli í þessu ágæta plaggi. Það er eins og það sé einhver ótti þarna úti einhvers staðar við það að Alexandersflugvöllur sé nefndur sem varaflugvöllur. Það er eins og menn óttist einhvern veginn að sá flugvöllur muni keppa við hina flugvellina. Það er vitanlega ekki það sem mun gerast. Hins vegar er alveg augljóst að flugvöllur sem er einn og hálfan tíma frá Akureyri, sem er í þrjá og hálfan tíma frá Reykjavík, fjóra og hálfan tíma frá Keflavík, hann er betur í stakk búinn til að vera varaflugvöllur en flugvellir sem eru lengra í burtu og er jafnvel yfir eina, tvær, þrjár heiðar eða fjallvegi að fara. Ég skil ekki alveg þennan ótta við að taka þessa umræðu. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að taka fagnandi þingsályktunartillögu sem hér hefur verið lögð fram varðandi Alexandersflugvöll og hjálpa okkur við að klára hana hér í þinginu og skella sér í þetta mál.

Ég sakna þess líka og nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hvers vegna fór út tillagan um stiglækkandi tryggingagjald á landsbyggðinni? Sú tillaga var í þeim drögum og þeirri áætlun sem til var í ráðuneytinu í janúar 2017 og ég velti fyrir mér hvers vegna þessi tillaga fer út, því að þetta er gríðarlega mikilvæg tillaga og ný. Þetta er ný hugsun sem miðar að því að hvetja til þess og hjálpa fyrirtækjum og þeim sem vildu fara í rekstur úti á landi til að komast yfir erfiðasta hjallann, í það minnsta að byggja upp sinn rekstur. Ég hef grun um af hverju þetta fór út, hvers vegna, en ég ætla hins vegar ekkert að fara að segja það hér. Ég gæti verið að ljúga einhverju, vil það helst ekki. Ég óska bara eftir að ráðherra upplýsi það hvers vegna og af hverju þetta fór út.

Áætlun þessi er annars hið ágætasta plagg. Það er margt nýtt í þessu. Það er ágæt ný hugsun. Ég verð samt að segja, ég sagði það hér fyrr í kvöld, að ég vil sjá þennan málaflokk á allt öðrum stað. Ég vil sjá hann í forsætisráðuneytinu. Ég vil sjá að forsætisráðherra hafi yfirumsjón með byggðamálum. Það er í raun eina ráðuneytið sem getur kippt í spottana og sagt: Við ætlum að tengja samgöngumálin, við ætlum að tengja heilbrigðismálin, við ætlum að tengja raforkumálin, tengja þetta allt á einn stað. Það er forsætisráðuneytið. Það myndi líka gera þessum málaflokki hærra undir höfði, lyfta honum upp. Þetta er svo mikilvægt mál. Mér finnst að það þurfi að skoða þetta mjög vandlega. Þetta segi ég ekki vegna þess að mér þættu þetta leiðinleg mál á sínum tíma, alls ekki, það er að sjálfsögðu mjög skemmtilegt að vera í byggðamálunum, en þetta þarf bara að vera á stað þar sem þetta fær það vægi sem þetta á skilið.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að hafa þetta lengra í þessari umferð. Ég veit að þetta fær góða og ítarlega umfjöllun í nefndinni sem þetta fer til. Ég þakka fyrir.