148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[22:17]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir ítarlega og málefnalega umræðu um þingsályktunartillögu um byggðaáætlun sem við höfum verið að ræða hér í kvöld. Ég get tekið undir með síðasta ræðumanni, sem reyndar kom fram hjá mjög mörgum öðrum, að plaggið er út af fyrir sig ljómandi gott og markmiðin fín og þessar 54 aðgerðir. En aðalatriði er auðvitað að hrinda þeim í framkvæmd. Það munum við ekki gera öðruvísi en að Alþingi veiti síðan fjármagn til þessara hluta hér í plagginu.

Af því að talsvert hefur verið spurt um fjármögnun þessa hluta þá er það þannig að á þessum fimm árum í fjármálaáætluninni vex fjármagn til byggðaáætlunar og sóknaráætlana landshluta eins og rætt var um í ríkisstjórnarsamþykktinni. Ég man ekki nákvæmlega upphæðirnar en ætli það sé ekki 200 til 250 milljónum meira fjármagn þegar við erum komin að lokum tímans, þannig að það er að vaxa allan tímann. Við erum sennilega með um 500 milljónir í ár og það gætu sjálfsagt orðið rúmlega 600 á næsta ári og þannig mun þetta vaxa út tímabilið.

Það er hins vegar þannig, eins og líka hefur komið fram hjá einstökum þingmönnum, að ekki eru öll 54 verkefnin fjármögnuð af byggðalið í ráðuneytinu í samgöngu- og sveitarstjórnarmálum. Ég fór yfir það í framsögu minni að sum eru fjármögnuð algjörlega af byggðalið fjárlaga, auðvitað með fyrirvara um samþykki Alþingis og fjárveitingu þeirra til þess tíma. Sum eru samfjármögnuð, eru hér lögð fram til að hjálpa til við að leggja af stað í verkefni eða styðja við verkefni. Það á til að mynda við um það sem hv. þm. Bergþór Ólason var að ræða hér um geðheilbrigðismál og slíka hluti. Auðvitað koma aðalfjármunirnir til verksins úr fagráðuneytinu, en hér er kannski verið að taka svolítinn byggðasnúning á hluta af þessu.

Það sama gildir til dæmis um þrífösun rafmagns. Ég hef rætt það líka að á meðan við erum í þessu mikla verkefni, fjarskiptaverkefninu Ísland ljóstengt, erum við með aðalþungann á það en á seinni hluta tímabilsins myndum við kannski geta nýtt fjármuni til þrífösunar. Það er líka nefnd að störfum, eins og ég hef áður nefnt í umræðunni í dag, undir forystu hv. þm. Haraldar Benediktssonar, sem er að skoða hvernig við getum flýtt þrífösun rafmagns. Ég vil nota þetta tækifæri og lýsa þeirri skoðun minni að það sé óásættanlegt að við séum að horfa allt til ársins 2035 eða 2036 að því verkefni ljúki. Ég held að við eigum að setja okkur metnaðarfull markmið um að ljúka því kannski tíu árum fyrr, 2025, og taka á því með sambærilegum hætti og við höfum verið að taka á fjarskiptahlutanum.

Það er eitthvað sem við höfum verið að gera rétt. Það er jákvæð íbúaþróun. Það hefur komið fram í máli einstakra þingmanna á síðustu árum. Hún er hins vegar ekki alls staðar. Þess vegna þurfum við að leggja meiri áherslu á þau svæði sem búa við viðvarandi fólksfækkun, einhæft atvinnulíf, til þess að taka á því svo að þjónustan sé nægilega öflug. Þau 54 verkefni sem hér eru eru mörg hver til þess gerð.

En það er alveg rétt, sem hér hefur verið sagt, að samgöngur, þar með taldar almenningssamgöngur, eru auðvitað helsta byggðamálið. Þá getum við tekið fjarskiptin með. Þar erum við auðvitað að gera mjög góða hluti og við lendum ekki í fyrsta sæti í heiminum yfir stöðu okkar á því sviði nema við höfum verið að gera eitthvað rétt. Ísland ljóstengt er kannski það sem tryggði okkur fyrsta sætið þar. Reyndar er hitt líka að við erum mjög nýjungagjörn og forvitin og eigum auðvelt með að tileinka okkur tækni þannig að við höfum nýtt internetið frá upphafi, almenningur hefur tekið þessa tækni til sín. Og fyrirtækin á markaðnum hafa verið mjög virk, bæði í samkeppni og uppbyggingu. Allt þetta hefur hjálpast að við að gera þetta. Það þurfum við kannski að gera á fleiri sviðum.

Varðandi það hvort sjö ára áætlun sé fullfjármögnuð út tímann þá erum við með fimm ára fjármálaáætlanir. Hver einasta aðgerð er bundin af því að hún fái samþykki Alþingis í fjárlögum á hverjum tíma, en hér er lögð fram tillaga sem er þá í samræmi við fjármálaáætlun næstu fimm ár. Síðan er hún framlengd næstu tvö ár eftir eins og við myndum halda þeim takti sem við erum að gera núna. En þetta er auðvitað allt að lokum háð samþykki Alþingis.

Varðandi þá spurningu sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson var með, til að mynda varðandi hina mjög góðu hugmynd um stiglækkandi tryggingagjald úti á landi: Eins og við þekkjum frá Noregi þá eru í þessu plaggi tillögur sem menn gátu náð saman um og voru líklegar til að ná fram. Það breytir því ekki að til eru enn fleiri góðar hugmyndir um slíkt. Það gildir það sama um fyrirspurn hv. þingmanns, um hvort Byggðastofnun eigi að liðka fyrir kvótakaupum í sjávarútvegi, þ.e. að sveitarfélögin séu að kaupa kvóta. Nú býst ég við að það sé frekar þannig að séu sveitarfélögin tilbúin að ganga inn í forkaupsrétt sé einungis um tímabundna aðgerð að ræða nema menn séu að fara út í bæjarútgerðir á nýjan leik, sem ég held ekki. En það er til að mynda ekki ein af tillögunum, frekar er horft á þann hluta byggðakvótans sem Byggðastofnun hefur haft úr að spila, ekki síst er varðar uppbygginguna í brothættum byggðum og hefur margt gengið vel.

Varðandi fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar, um flutningskerfi raforku, þar sem áfram verði unnið að því að liðka fyrir nauðsynlegri uppbyggingu og viðhaldi á flutnings- og dreifikerfi raforku, þá er ég sammála hv. þingmanni um að þetta er orðskrípi, en það hefur fengið að lifa í gegnum tíðina, af því það var líka svona í plagginu í janúar 2017. En kannski er aðalatriðið þarna, sem menn eru að segja, að við þurfum að horfa til þess, í samstarfi við Orkustofnun, Landsnet og Landshlutasamtök sveitarfélaga, hvernig við getum tryggt þetta raforkuöryggi. Það er eitt af lykilatriðunum, eins og hér hefur líka verið nefnt af fleiri þingmönnum, þar á meðal hv. þm. Bergþóri Ólasyni.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir ræddi hér talsvert um samgöngumál og almenningssamgöngur, ég get tekið undir margt af því sem fram kom hjá henni, og var að hafa áhyggjur af því að liðurinn B.5, Nýsköpun í matvælaiðnaði, væri of sértækur. Ég vildi bara nefna liðinn B.14 þar sem talað er um fjármagn til nýsköpunar. Þar er verið að tala í heild sinni til allra atvinnugreina þar sem Byggðastofnun komi að verki og Byggðastofnun, Nýsköpunarmiðstöð, séu framkvæmdaraðilar og atvinnuráðgjöf landshlutanna dæmi um samstarfsaðila. Kannski er verið að setja sérstakan fókus á nýsköpun í matvælaiðnaði vegna þess að veruleg þörf er á því. Það hefur verið mikil umræða um það síðustu ár að þar séu sóknar- og tækifæri.

Ég hef kannski ekki endilega svarað öllu sem til mín hefur verið beint í umræðunni; hún hefur verið mjög góð. Í upphafi umræðunnar var aðeins rætt um að hér væru mjög ólíkar áherslur og svolítið eins og það væri að koma úr ólíkum áttum. Hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir var að nefna það. Það er auðvitað ástæða fyrir því að áherslur eru ólíkar og verkefnin 54 mjög ólík. Það er vegna þess að haft hefur verið samráð við mjög marga aðila og hlustað hefur verið á það samráð og það skilar sér inn í plaggið. Þess vegna verður þetta víðtækara en oft áður.

Ég held að um þessa þingsályktunartillögu um byggðaáætlun megi segja að hún hafi aldrei verið unnin eins ítarlega og hér er verið að gera. Það er í fyrsta skipti sem menn setja beina fjármuni úr byggðalið áætlunarinnar inn á ákveðna liði. Ein af ástæðunum fyrir því að sum verkefni eru kannski komin í gang og verið að ýta undir þau, er að þetta hefur einmitt tekið tvö ár í vinnslu. Það er ekkert óeðlilegt að eitthvað sem hafi kviknað fyrir tveimur árum sé sem betur fer búið að setja af stað, en fái meiri stuðning hér í þessari þingsályktunartillögu.

Ég þakka fyrir mjög góða umræðu og treysti því og veit, miðað við þann áhuga sem sýndur var hér í þinginu, að þetta fær góða skoðun og umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd.