148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[22:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þetta. Það er tvennt sem mig langar aðeins að fá nánari útskýringar á. Í fyrsta lagi fannst mér ráðherra ekki svara því nógu skýrt hvort áætlunin væri fjármögnuð á sama árabili og fjármálaáætlun gildir. Ef við erum að tala um fimm ár er þá byggðaáætlun fullfjármögnuð á því fimm ára tímabili sem fjármálaáætlun gildir? Þá er ég ekki bara að spyrja um það sem snýr að byggðaliðnum, heldur öllu því sem vísað er til, önnur ráðuneyti og slíkt. Er þetta allt fullfjármagnað og frágengið, vantar ekki krónu eða aur inn í byggðaáætlunina þegar að þessu öllu kemur, þ.e. ráðuneytin, stofnanir, eru allir búnir að fjármagna sig?

Í öðru lagi langar mig að spyrja aðeins nánar út í þetta með tryggingagjaldið. Ég heyri ekki betur en hæstv. ráðherra hafi sagt að ekki hafi náðst samkomulag um að það yrði inni í þessari byggðaáætlun. Mig langaði að spyrja: Hvað í ósköpunum kom í veg fyrir það? Hvað var það sem stoppaði það að stigbreytilegt tryggingagjald yrði sett inn í þessa áætlun? Voru það samstarfsflokkar ráðherra sem komu í veg fyrir að þetta yrði inni í áætluninni?