148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[22:28]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það þá er það augljóslega ekki sá sem hér stendur sem kom í veg fyrir slíkt, enda hefur hann verið talsmaður slíkra hugmynda. Í byggðaáætlun 2014–2017 var til að mynda talað um að taka upp norskt kerfi hvað þetta varðar. Það er hins vegar þannig að til þess að menn geti sett eitthvert verkefni inn í byggðaáætlun, sem er markvisst, aðgerðamiðað og mælanlegt, verður það líka að vera hluti af þeim skattkerfisbreytingum sem eru að verða í landinu. Um þær hugmyndir hefur ekki enn náðst samstaða, skulum við segja, kannski hefur bara ekki verið rætt nóg um áhrif þess, hvernig eigi að gera það. Það er á margan hátt auðveldara að skýra út hvernig það er gert í Noregi einfaldlega vegna þess hvernig landið lítur út, vegna legu þess. Það er flóknara á Íslandi út frá sjónarmiðum um vaxtarsvæði og eitthvað slíkt. En ég tel að það væri áhugavert að vinna þessa hugmynd áfram og ná meira fylgi við hana úti í samfélaginu. En til þess að leggja fram plagg á þingi sem er líklegt til þess að verða afgreitt og að aðgerðirnar fari í vinnslu þarf að vera samstaða um slíkt og hún víðtæk.

Varðandi fullfjármögnunina þá eru allir liðir í fimm ára áætluninni fullfjármagnaðir hvað þetta varðar. Þegar það er sagt þá fylgir fjármagn úr öðrum ráðuneytum hluta af þessum 54 verkefnum, sennilega um 24, jafnvel eingöngu eða að mestu leyti. Áherslur viðkomandi ráðuneytis og ráðherra verða að stýra því hversu háar fjárhæðir koma á hverju ári inn í þau verkefni. En eins og við höfum rætt um þá er mikilvægt að ráðuneytin standi saman um þetta verkefni og við séum tilbúin að setja byggðagleraugun á okkur (Forseti hringir.) í hvert sinn sem við rýnum slík verkefni. Áherslur er varða byggðamál eiga að koma fram hjá öllum ráðuneytum (Forseti hringir.) óháð því hvort byggðamálin eru á einum stað eða öðrum.