148. löggjafarþing — 51. fundur,  16. apr. 2018.

stefnumótandi byggðaáætlun 2018--2024.

480. mál
[22:31]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var að leika sér að því að misskilja orð mín er varðaði fjármögnunina. Ég sagði að það væri skýrt að sá liður sem félli undir byggðaáætlun væri fullfjármagnaður, það sem ég ber ábyrgð á. En það sem heyrir undir önnur fagráðuneyti er hver og einn ráðherra ábyrgur fyrir. Ég held að það hafi ekki getað verið skýrara; þannig að það sé alveg á hreinu og enginn þurfi að velkjast í vafa um slíkt.

Það er hins vegar mikil áhersla hjá ríkisstjórninni á byggðamál. Ég held að ég geti fullyrt að menn muni leggja sig alla fram í þeim fagráðuneytum sem heyra beint þar undir eða eru samfjármögnuð með liðum af byggðaáætlun; menn munu leggja þá fjármuni til þess að koma verkefnunum í framkvæmd. Það eru mælikvarðar sem geta mælt upp og fylgt eftir hvernig þeir eru síðan unnir.

Varðandi aðrar hugmyndir sem ekki hafa ratað hér inn, þá er auðvitað sjálfsagt mál að þær séu ræddar í nefndinni og menn velti fyrir sér hvort skynsamlegt sé að fara í tilraunaverkefni hvað eitt eða annað varðar. En ég velti því hins vegar upp sem hv. þingmaður nefnir hér og spyr hvort Vestfirðir í heild sinni séu til dæmis besta dæmið. Á suðurfjörðum Vestfjarða er til dæmis uppgangur, gengur vel. Þar er fiskeldi sem hefur gjörbreytt aðstæðunum. Ef við tökum Snæfellsnes þá er ekki það sama að gerast þar. Þar er sjávarútvegurinn að berjast svolítið í bökkum. Þá er kannski ekki alveg eins auðvelt að teikna upp byggðakortið af Íslandi, hvar skynsamlegast sé að fara inn og hvar ekki. Þess vegna gæti bara verið að þetta þyrfti meiri umræðu áður en við færum lengra. Sá sem hér stendur er tilbúinn að taka þátt í þeirri umræðu á uppbyggilegan og jákvæðan hátt.