148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

samningar við ljósmæður.

[15:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gaf út á sínum fyrstu dögum miklar yfirlýsingar um að hún ætlaði að bjarga heilbrigðiskerfinu. Samt er naumt skammtað til spítalareksturs og óljóst hvernig tryggja á fjármagn til björgunarinnar, m.a. til að mæta sanngjörnum kröfum ljósmæðra. Ljósmæður eru eitt augljósasta dæmi um kvennastétt sem þola hefur þurft kerfisbundna mismunun, stétt sem sinnir viðkvæmri og mikilvægari þjónustu á allt of lágum launum. Fyrir þremur árum fóru ljósmæður í verkfall sem lauk með lagasetningu og gerðardómi. Ríkið hefur neitað að greiða þeim laun fyrir störf þeirra í verkfallinu allar götur síðan. Í rúmlega hálft ár hafa ljósmæður gert tilraun til þess að semja við ríkið um launaleiðréttingu. Með hverri vikunni sem líður segja fleiri ljósmæður upp.

Ofan á uppsagnahrinu ljósmæðra berast nú þær fréttir að 95 ljósmæður sem eru í heimahjúkrun hætti að sinna þjónustunni þar sem ekki er í gildi rammasamningur. Frá því að samráðshópur ljósmæðra og Sjúkratrygginga Íslands sendi inn tillögur fyrir páska hefur ekki heyrst orð frá ráðuneytinu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir ljósmæðra til að ná tali af starfsmönnum ráðuneytisins. Einnig hafa þær reynt að ná sambandi við heilbrigðisráðherra persónulega en ekkert hefur gengið.

Ljósmæður í heimahjúkrun eru í raun verktakar á lúsarlaunum. Þessi þjónusta sparar þó ríkinu og sjúkrahúsunum stórkostlega fjármuni og er forsenda fyrir því að margar mæður geti farið heim af fæðingardeild jafn fljótt og tíðkast hér á landi.

Það er augljóst að það er hvorki til starfsfólk né aðstaða til að sinna þessari þjónustu í stað ljósmæðra þrátt fyrir yfirlýsingar heilbrigðisráðherra frá því í morgun.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Telur hún ekki að þetta samtals- og sinnuleysi geti valdið frekari skaða, m.a. vegna þess að þær ljósmæður sem sagt hafa upp störfum munu ekki koma aftur? (Forseti hringir.)

Enn fremur: Mun samninganefnd ríkisins fá ríkara samningsumboð (Forseti hringir.) í kjaraviðræðum sem fram undan eru?