148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

samningar við ljósmæður.

[15:11]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Gott heilbrigðiskerfi þarf eftir sem áður að reiða sig á ljósmæður í framtíðinni. Mér finnst þetta sinnuleysi gagnvart stéttinni algjörlega til skammar. Það kristallast ágætlega í minnisblaði velferðarráðuneytisins frá því í morgun þar sem talað er um hitt og þetta en ekki minnst orði á að tala eigi við ljósmæður. Og raunar hefur ráðuneytið ekki gert það.

Hvað þýðir t.d. að fyrirkomulagi um þjónustu við sængurkonur í heimahúsum verði sköpuð traustari umgjörð en felst í þeim rammasamningi sem hingað til hefur verið starfað eftir?

Það er ýmislegt mjög óljóst í þessu bréfi og ráðherra þarf að svara því hvernig hún ætlar að ná sátt við þessa stétt sem býr við kjör sem eru ömurlegri en menn hefðu getað trúað. Mér finnst að ráðherra eigi a.m.k. að sýna þá auðmýkt að svara þeim þegar spurningum er beint til hennar.