148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

samningar við ljósmæður.

[15:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það þarf nú ekki bara auðmýkt til að svara bréfum, það á að gera það samkvæmt stjórnsýslulögum. Ég hef sagt það hér og ég hef sagt það margoft að um afar mikilvæga stétt er að ræða. Ég stend með því að þær fái borgað í samræmi við menntun sína og ábyrgð. Það sem hv. þingmaður er að vísa hér til er ekki bréf heldur fréttatilkynning sem send var frá ráðuneytinu í morgun. Ég hef hitt formann Ljósmæðrafélagsins og held að það sé vit í því að ég hitti hana aftur og við förum yfir stöðuna sem upp er komin, en samningarnir eru beint á milli heimaþjónustu ljósmæðra og Sjúkratrygginga Íslands, en ekki beint við ráðuneytið. Það er síðan á síðari stigum sem ráðuneytið staðfestir niðurstöðu samninga. En í þessu tilviki þá bárust ráðuneytinu tilteknar hugmyndir að niðurstöðu sem Landspítalinn – háskólasjúkrahús og Sjúkrahúsið á Akureyri gátu ekki fellt sig við. Það er í raun og veru úrvinnsluverkefni dagsins. Við munum láta hendur standa fram úr ermum í því.