148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

framlög til samgöngumála í Reykjavík.

[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort maður getur svarað því til hér að tæplega gefist tími til þess fyrir kosningarnar eftir mánuð. En ég vil taka fram að það er alveg skýrt í lögunum að þegar sveitarstjórnir fara fram á kosti í samgöngumálum sem eru umfram það sem Vegagerðin telur nauðsynlegt til að ná fram þeim markmiðum í samgöngubótum sem að er stefnt, t.d. með stokkalausnum eða öðrum slíkum kostnaðarsömum viðbótarframkvæmdum, er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin þurfi sjálf að bæta því við sem á vantar til þess að standa undir framkvæmdinni.

Ég ætla ekkert að fullyrða neitt varðandi Miklubrautina hvað þetta snertir, en það er alveg augljóst á grundvelli laganna að ekki er útilokað að koma þurfi til sérstakt framlag frá sveitarfélaginu til að fara í slíka dýra lausn. Í raun og veru gildir það sama með borgarlínu. Á þeim fundum sem ég hef setið um borgarlínuverkefnið hefur það verið alveg skýrt að slík framkvæmd yrði ekki að fullu fjármögnuð af ríkinu.

Ég hef heyrt hugmyndir héðan úr Reykjavíkurborg um einhvers konar innviðagjald sem menn verða að taka sjálfstæða umræðu um. En mér er ekki kunnugt um að það eigi með einhverjum hætti að fjármagna hlut höfuðborgarinnar hvað þetta verkefni snertir eða hvernig önnur sveitarfélög hyggjast leggja sitt af mörkum. En okkur er tiltölulega þröngur stakkur sniðinn eins og sjá má af nýlega framlagðri fjármálaáætlun til að ráðast í tugmilljarðaframkvæmdir eins og þær sem hér eru nefndar til sögunnar.