148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

samningur um heimaþjónustu ljósmæðra.

[15:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í fyrsta lagi spyr hún hvað valdi misvísandi upplýsingum. Ég get ekki svarað því, því miður. Það sem ég er með í höndunum er minnisblað sem ráðuneytinu barst frá Sjúkratryggingum í mars, 23. mars minnir mig, þar sem reifaðir eru þeir valkostir sem Sjúkratryggingar hafi í samningum við ljósmæður, eftir að hafa setið yfir málinu með þeim. Það kann að vera að í þeim samskiptum hafi skapast sá sameiginlegi skilningur að þar með væri kominn samningur. En ég er sammála hv. þingmanni, það hefði komið mér á óvart ef samningur sem felur í sér skerta þjónustu hefði verið aðgengilegur fyrir ljósmæður á þeim tímapunkti. Enda kemur fram í umsögn Landspítala – háskólasjúkrahúss, sem barst til okkar í morgun eftir að ég hafði rekið á eftir því í gærkvöldi, að heimaþjónusta ljósmæðra fyrir umræddan hóp, þ.e. hópinn sem er í heilsufarsflokki C, sem svo er kallaður, er mikilvæg og brýn þjónusta. Úrræði heimaþjónustu ljósmæðra fyrir þennan hóp dregur úr dvalarlengd móður og nýbura á sjúkrahúsi að meðaltali um tvo til fjóra sólarhringa, sem hefur í för með sér umtalsverðan fjárhagslegan sparnað og flýtir fyrir samveru fjölskyldunnar, sem er mikilvæg með tilliti til tengslamyndunar o.s.frv. Þar segir líka að snemmútskriftir kvenna og nýbura sem falla undir þennan heilsufarsflokk án viðeigandi eftirlits og umönnunar séu ekki ásættanlegar og beinlínis ógn við öryggi þeirra og auki líkur á endurinnlögnum og þess háttar.

Það er alveg ljóst að þetta minnisblað felur í sér ákveðna nálgun að stöðunni sem upp er komin þar sem gert er ráð fyrir því að (Forseti hringir.) dragi úr þjónustunni. Það liggur alveg fyrir.