148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

framlög til heilbrigðismála.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Nei, það er alls ekki markmiðið að útrýma einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Ég get sagt fyrir mitt leyti, fyrst þetta er lagt upp með þessum hætti hér, að ég hef mjög mikla trú á að við getum aukið sveigjanleika í kerfinu, aukið hagkvæmni og náð betri árangri fyrir sjúklinga, með því að tvinna saman kosti opinbers rekstrar, opinberrar fjármögnunar, og síðan einkarekstrar. Auðvitað kann að vera að komið sé að endurnýjun tiltekinna samninga sem er verið að tína til hér og að það eigi eftir að koma í ljós hvernig fer með framhald þeirra mála.

Síðan erum við með önnur mál; ríkisstjórnin tók t.d. nýlega ákvörðun um að stórauka greiðsluþátttöku fyrir sjúklinga vegna tannlækninga, þ.e. eldri borgara, tannlæknakostnað þeirra. Þar erum við með dæmi um þjónustu þar sem framlög eru aukin vegna þjónustu sem haldið er uppi í landinu af einkaaðilum.

Þetta er risastór spurning, spurningin um það hvernig við nýtum best það fé sem við ætlum að ráðstafa til þessa málaflokks. Ég get tekið undir með hv. þingmanni þegar að því kemur að við mættum kannski gera betur í því að greina og kalla fram kosti einkaframtaksins þar sem þeir eru mestir og hafa skilað mestu, bæði hér á landi og annars staðar, og á sama tíma að leggja þær kröfur á opinberar stofnanir, eins og t.d. sjúkrahúsin stóru, að við fáum ávallt hámarksnýtingu þeirra fjármuna sem þangað rata.