148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

framlög til heilbrigðismála.

[15:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það er auðvitað áhugavert að rifja upp ágæta grein eftir forstjóra Sjúkratrygginga nú nýverið þar sem einmitt er talað um þennan sama vanda. Það eru ekki hagkvæmnissjónarmiðin sem ráða för, það virðast vera aðrar ástæður fyrir því að við viljum ekki nýta okkur þjónustu einkarekinna aðila. Nú verðum við að hafa í huga að fjöldi þessara aðila er ekki einu sinni að reka starfsemi sína í hagnaðarskyni. Þetta eru oft samtök sem standa í sjálfboðastarfi, eru að reka þjónustu innan heilbrigðiskerfisins sem jafnan er mun hagkvæmari en ég hygg að ríkið sjálft gæti boðið. En ég get ekki séð annað, af fyrstu skrefum ríkisstjórnarinnar, en að hægt og rólega sé verið að ýta þessum kostum út með meiri tilkostnaði fyrir heilbrigðiskerfið, með meiri tilkostnaði fyrir ríkissjóð.

Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. fjármálaráðherra andmælir því og segir þetta alls ekki vera stefnumið ríkisstjórnarinnar. Ég vona svo sannarlega að þau sjónarmið verði þá hávær við ríkisstjórnarborðið (Forseti hringir.) því að stefna hæstv. heilbrigðisráðherra virðist vera önnur í þessum málum.