148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

framlög til heilbrigðismála.

[15:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé um að ræða málaflokk sem við þurfum að gefa lengri tíma og að betri greiningarvinna þurfi að eiga sér stað og mögulega meira aðhald héðan frá þinginu, bæði frá fjárlaganefnd og viðkomandi fagnefndum, þegar kemur að því hvernig við fylgjum eftir fjármagni í heilbrigðiskerfinu og tryggjum afköst.

Ég er nú ekkert viss um að það sé jafn mikill skoðanaágreiningur, eins og hér er látið skína í, við heilbrigðisráðherra sem nýlega sagði að ástandið vegna liðskiptaaðgerðanna væri algerlega óviðunandi og það yrði að bregðast við. Enda stríðir það augljóslega gegn heilbrigðri skynsemi að við séum að velja miklu dýrari kostinn eða, á grundvelli Evrópureglugerða, að sitja uppi með miklu dýrari kost, þegar kemur að slíkum aðgerðum, en þann sem virðist nú þegar vera fyrir hendi.

Mistakist okkur á þessu sviði þá er ljóst að gríðarlega miklir fjármunir eru undir vegna þess hversu miklir fjármunir renna í heildina tekið til heilbrigðiskerfisins.