148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

stefnumótun í fjármálaáætlun og fjárlögum.

[15:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nú er fyrri umr. þingsins um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar lokið. Síðasta ráðuneytið kynnir mál sín úr fjármálaáætlun fyrir fjárlaganefnd og fyrir fagnefnd þingsins á morgun. Eftir fyrri umr. og þær kynningar sem farið hafa fram stendur enn eftir spurning um fjárveitingavaldið. Það er spurning sem hefur orðið háværari með hverri fjármálaáætlun og fjárlögum sem þingið hefur tekið til meðferðar frá því að lög um opinber fjármál voru samþykkt.

Í stjórnarskrá Íslands má rekja fjárveitingavaldið á einfaldan hátt til tveggja greina, annars vegar 2. gr., um að Alþingi og forseti fari saman með löggjafarvaldið, og hins vegar 41. gr., um að ekkert gjald megi reiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum. Hér vil ég hins vegar fjalla um fjármálaáætlun

Í lögum um opinber fjármál segir m.a.:

„Frumvarp til fjárlaga skal vera í samræmi við markmið fjármálaáætlunar.“

Þau markmið má svo rekja til stefnumótunar einstaka ráðherra fyrir sín málefnasvið en þar segir, með leyfi forseta:

„Í stefnunni skal gerð grein fyrir hvernig markmiðum verði náð, ábyrgðarskiptingu, tímasetningum, nýtingu fjármuna og áherslum við innkaup. Þá skal gerð grein fyrir fyrirhuguðum lagabreytingum. Stefna fyrir málefnasvið skal vera heildstæð og í samræmi við þau fjárhæðamörk sem koma fram í gildandi fjármálaáætlun.“

Ég spyr ráðherra: Kemur það skýrt fram í fjármálaáætlun hvernig stefna fyrir hvert málefnasvið er í samræmi við þau fjárhæðamörk sem tilgreind eru í fjármálaáætlun? Hér legg ég áherslu á það hvernig stefnan er í samræmi við tilgreind fjárhæðamörk.