148. löggjafarþing — 53. fundur,  23. apr. 2018.

vinna íslenskra stjórnvalda vegna innleiðingar þriðja orkupakka ESB.

499. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Forseti. Mig langar að byrja á því að fullyrða að EES-samningurinn sé undirstaða undir mikilvægasta alþjóðasamstarf sem Ísland hefur tekið þátt í. Við höfum ómælda hagsmuni af því að viðhalda samningnum með öllum kostum hans, en jafnframt að tryggja virka hagsmunagæslu okkar þar. Það er ástæða til að fagna því að Alþingi hefur samþykkt skýrslubeiðni til utanríkisráðherra um kosti og galla aðildar okkar að þessum samningi. Ég treysti því að við fáum þar faglegt og hlutlaust mat á stöðunni.

Mig langar að víkja að því sem er ástæðan fyrir því að ég bað um að fá að eiga orðastað við hæstv. ráðherra, það er hvernig fulltrúar ákveðinna flokka hafa reynt að tala samninginn um EES niður líkt og ekki sé um tvíhliða markaðssamstarf að ræða og hagsmunagæslan sé engin. Þannig samþykktu tveir stjórnarflokkar á landsfundi sínum ályktanir sem virðist gagngert beint gegn hinum svokallaða þriðja orkupakka EES-samstarfsins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa komið þeim sjónarmiðum sínum á framfæri í fjölmiðlum, bæði hér á landi og í Noregi, að hér sé um stórvarasama löggjöf að ræða, málið snúist um yfirráð yfir auðlindunum okkar.

Nú er það svo, herra forseti, að þetta eru upplýstir þingmenn og það er hlustað þegar þeir tjá sig. Það má setja þessar samþykktir og þessar fullyrðingar í samhengi við það sem m.a. segir í nýrri skýrslu utanríkisráðherra og nýlega var rædd hér á Alþingi, með leyfi forseta:

„Samkvæmt EES-samningnum hefur Ísland margvísleg tækifæri til að hafa áhrif á mótun nýrra EES-reglna. … Til að mynda býðst íslenskum sérfræðingum þátttaka í sérfræðingahópum sem framkvæmdastjórnin hefur samráð við um mótun löggjafar.“

Þegar þetta er allt sett í samhengi þá vakna óneitanlega spurningar. Það er ljóst að tækifæri okkar til hagsmunagæslu eru til staðar og þau eru skýr. Þá er spurt: Hvaðan stafa þær áhyggjur sem upp hafa komið hvað varðar hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd í samstarfinu?

Ég óska eftir því að fá á hreint frá hæstv. ráðherra: Hver eru helstu sjónarmið og hagsmunir Íslands varðandi þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem felur í sér löggjöf á sviði innri orkumarkaðarins?

Auðvitað má finna svarið við þessu að hluta til a.m.k. í greinargóðu minnisblaði sem var nýlega sett saman að beiðni hæstv. ráðherra um þessi álitaefni. Þar kom fram að þeir sem höfðu lesið tilskipunina vissu að þriðji orkupakkinn haggar í engu yfirráðum íslenskra stjórnvalda yfir orkuauðlindunum okkar, að réttur Íslands til að ákveða skilyrði nýtingu orkuauðlinda eða orkugjafa okkar er óbreyttur og að forræði Íslands yfir leyfisveitingum til lagningar sæstrengs er óhaggað.

Mig langar til að fá staðfestingu ráðherra á því að áhyggjur samstarfsmanna hennar séu úr lausu lofti gripnar.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða aðkomu hafa íslensk stjórnvöld haft af fyrstu stigum vinnunnar, þ.e. við mótun löggjafarinnar? Hvernig komu þau sjónarmiðum Íslendinga á framfæri? Tengt því óska ég svara við því á hvaða vettvangi þessi vinna fór fram og hvaða gögn er að finna um þau.